Ingvar í 9. sæti á ÓL ungmenna

Ingvar Andri Magnússon.
Ingvar Andri Magnússon. mbl.is/Árni Sæberg

Kylfingarnir Hulda Clara Gestsdóttir og Ingvar Andri Magnússon, bæði úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, hafa lokið leik í einstaklingskeppninni á Ólympíuleikum ungmenna sem fram fara í Buenos Aires í Argentínu. 

Einstaklingskeppninni lauk í gær þar sem leiknir voru þrír keppnishringir á þremur dögum.

Ingvar Andri endaði í 9. sæti á átta höggum yfir pari samtals en hann lék hringina þrjá á 74-73-71.  Ingvar Andri var í 12. sæti fyrir lokahringinn. Karl Vilips frá Ástralíu fékk gullverðlaunin á fjórum undir pari samtals.

Hulda Clara endaði í 29. sæti á +35 samtals og lék hringina þrjá á 81-82-82. Grace Kim frá Ástralíu fékk gullverðlaunin á höggi yfir pari samtals.

Á morgun hefst liðakeppni og er þá leikinn fjórmenningur. Á sunnudaginn er leikinn fjórbolti og sameiginlegt skor í höggleik telur á lokahringnum á mánudag. Liðakeppnin er því býsna fjölbreytt. 

Hulda og Ingvar eru brautryðjendur í sinni íþrótt en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir kylfingar keppa á golfmóti sem tengist Ólympíuleikunum.

mbl.is