Íslendingarnir hnífjafnir í Austurríki

Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson ræða saman.
Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson ræða saman. mbl.is/Arnþór Birkisson

Atvinnukylfingarnir Haraldur Magnús Franklín og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru jafnir eftir tvo hringi á Euram Bank Open golfmótinu í Ramsau í Austurríki. Mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu.

Guðmundur lék afar vel á fyrsta hring í gær og var á meðal efstu manna á fimm höggum undir pari. Honum fataðist hinsvegar flugið og er nú á þremur höggum undir pari og í 35. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum.

Einn þeirra kylfinga er Haraldur sem lék á 67 höggum í gær og 70 höggum í dag. Andri Þór Björnsson tókst síðan naumlega að fara í gegnum niðurskurðinn. Hann lék fyrsta hring í gær á 69 höggum og hringinn í dag á 70 höggum og er á einu höggi undir pari.

Bjarki Pétursson er hinsvegar úr leik. Hann lék hringina tvo á samanlagt fjórum höggum yfir pari. Finninn Matias Honkala er efstur á ellefu höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert