Reyna að komast inn á The Open

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús keppa báðir á …
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús keppa báðir á The Prince's á morgun. mbl.is/Arnþór Birkisson

Atvinnukylfingarnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG og Haraldur Franklín Magnús úr GR freista þess á morgun að vinna sér keppnisrétt á The Open, breska meistaramótinu í golfi, en þeir taka þátt í úrtökumóti á Englandi.

Fjögur úrtökumót eru leikin á sama tíma á fjórum völlum á Englandi og þeir Guðmundur og Haraldur leika á sama vellinum, The Prince's. Báðir hefja þeir fyrri hringinn um klukkan hálfsjö í fyrramálið og þann seinni í hádeginu.

Alls reyna 288 kylfingar að vinna sér keppnisrétt á mótinu en þar verða aðeins sextán sæti í boði, fjögur á hverjum velli.

Haraldur hefur áður komist þessa leið en árið 2018 náði hann einu efstu sætanna á lokaúrtökumóti og keppti fyrir vikið á The Open það ár, á Carnoustie-vellinum í Skotlandi, fyrstur Íslendinga. Þá keppti hann einmitt á úrtökumóti á þessum sama velli, The Prince's, sem er í Sandwich Bay í Kent á suðausturhorni Englands.

mbl.is