Fjögurra marka sigur Framara

Ragnheiður Júlíusdóttir, stórskytta Fram, lætur hér vaða á markið í …
Ragnheiður Júlíusdóttir, stórskytta Fram, lætur hér vaða á markið í dag. mbl.is/Golli

Fram heldur áfram að vera eitt liða í efsta sæti Olís-deildar kvenna eftir fjögurra marka sigur, 26:22, á ÍBV í Framhúsinu í dag. Fram-liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Munurinn var fimm mörk í hálfleik, 14:9, og varð mestur sex mörk í síðari hálfleik og minnstur tvö mörk.

ÍBV er áfram í baráttu um þriðja til fjórða sæti í deildinni.

Framliðið tók forystu strax í upphafi leiksins og hélt því til loka fyrri hálfleiks. Leikurinn var hins vegar afar slakur af beggja hálfu með nærri 20 tæknimistök og þar af leiðandi lítt fyrir augað. Munurinn á liðunum í fyrri hálfleik var markvarslan. Guðrún Ósk Maríasdóttir fór á kostum í marki Fram að baki ágætri vörn. Hún varði 12 skot, nokkur í opnum færum. Fram-liðið gat öðrum fremur þakkað henni fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:9.

Kraftur var í ÍBV í byrjun síðari hálfleiks og liðið náði að minnka forskot Fram niður í þrjú mörk, 16:13. Möguleiki gafst á að minnka muninn enn meira. Það tókst ekki og Fram-liðið náði á skömmum tíma sex marka forskoti, 20:14, eftir að hafa náð pari af hraðaupphlaupum á skömmum tíma.

Á síðustu tíu mínútum leiksins gerði ÍBV-liðið harða hríð að Fram-liðinu en allt kom fyrir. Munurinn var minnstur tvö mörk, en nær komst ÍBV ekki. Guðrún stóð fyrir sínu í marki Fram auk þess sem mistök Fram-liðsins voru færri en gestaliðsins.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram með níu mörk. Steinunn Björnsdóttir var næst með sjö mörk. Guðrún Ósk Maríasdóttir átti stórleik í markinu, varði 20 skot.

Greta Kavailuskaite var markahæst hjá ÍBV með sjö mörk. Ester Óskarsdóttir og Ásta Björt Júlíusdóttir skoruðu fjögur mörk hvor.

Aðeins 11 leikmenn voru á skýrslu hjá ÍBV og breiddin í liðinu var þar af leiðandi takmörkuð.

Fram 26:22 ÍBV opna loka
60. mín. ÍBV skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert