Góður stígandi í liðinu

Guðný Jenný Ásmundsdóttir.
Guðný Jenný Ásmundsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Guðný Jenný Ásmundsdóttir hefur spilað vel í marki ÍBV í Olís-deild kvenna í handknattleik undanfarið en þær unnu enn einn sigurinn í kvöld þegar Grótta mætti til Vestmannaeyja. Guðný Jenný hefur átt marga ótrúlega flotta leiki í vetur en spilaði einungis fyrri hálfleik í dag gegn Gróttu, þar varði hún sjö af þeim fimmtán skotum sem hún fékk á sig.

„Miðað við stöðuna í deildinni ætti þetta að vera skyldusigur, fjórtán marka sigur er kannski allt í lagi en mér fannst við eiga að vera með meiri gæði í leiknum. Mér fannst vörnin stundum aðeins of gloppótt, við duttum niður á þeirra plan, fannst mér. Við getum gert betur, í vörn, markvörslu og sóknarleik,“ sagði Guðný Jenný eftir að hún var spurð um hvort að þetta hafi verið skyldusigur.

Grótta er með þunnskipað lið og misstu Lovísu Thompson af velli snemma, þetta var í raun alltaf að fara að vera erfitt fyrir þær bláklæddu.

„Það má eiginlega segja það, um leið og Lovísa fór útaf vissi maður að þetta yrði þungur róður fyrir þær. Þessi rúmenska (Savica Mrkik) steig upp fannst mér, ég veit ekki til þess hvort að hún hafi skorað svona mörg mörk í leik í deildinni í vetur. Oft eru leikir einhvern veginn svona, hausinn fer að stríða manni en við náðum að klára þetta.“

ÍBV á fjóra leiki eftir í deildinni, tvo þeirra gegn liðum neðarlega í deildinni og síðan tveir leikir gegn sterkum liðum í lokin.

„Okkur líður vel, við erum búnar að vera á góðri leið síðan við byrjuðum eftir áramót. Góður stígandi í liðinu hjá okkur, við áttum einn fyrri hálfleik á móti Haukum, hérna heima sem var skelfilegur, eftir það höfum við náð að koma betur stilltar í alla leiki, með hausinn rétt skrúfaðan á. Þetta leggst allt mjög vel í mig svo framarlega sem við erum „fókuseraðar“ á verkefni, spilum agað og höldum okkar rútínu.“

Fram var óskaliðið

Dregið var í undanúrslitin í Coca-cola bikarnum fyrr í dag þar sem ÍBV lenti gegn Fram í undanúrslitum, hvernig líst Jenný á þann drátt?

„Það er bara flott, það er fínt að mæta Fram í undanúrslitum og ég hlakka til.“

Hefði Jenný viljað mæta öðru liði en Fram?

„Nei, Fram var óskaliðið,“ sagði Jenný að lokum.

ÍBV hefur sigrað Val og Hauka, efstu lið deildarinnar, hversu langt kemst liðið upp töfluna?

„Við viljum enda eins ofarlega og hægt er, helst tryggja okkur heimaleikjaréttinn ef það er hægt. Það er núna bara einn leikur í einu, næst er heimaleikur gegn Selfossi, það hefur verið stígandi hjá Selfossi. Haukar unnu þær einungis með einu marki í þessari umferð, þær eru búnar að fá Hönnu (Hrafnhildi Hönnu) inn til baka og við megum ekki vera með neitt kæruleysi á móti þeim og ekki Fjölni heldur. Við ætlum okkur að enda með eins mörg stig og við mögulega getum en við þurfum að berjast fyrir því,“ sagði Guðný Jenný að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert