Þetta var bara lélegt hjá okkur

Sandra Erlingsdóttir lék mjög vel þrátt fyrir tap.
Sandra Erlingsdóttir lék mjög vel þrátt fyrir tap. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætluðum klárlega að hefna okkur og gera þetta að öðruvísi leik en í bikarúrslitunum en við byrjuðum nákvæmlega eins og við byrjuðum í bikarleiknum og gerðum okkur erfitt fyrir," sagði Sandra Erlingsdóttir, leikmaður ÍBV í samtali við mbl.is eftir 28:23-tap gegn Fram í síðustu umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í dag. Sandra var markahæst Eyjakvenna í leiknum með 11 mörk.

ÍBV hefði með sigri getað tryggt sér deildarmeistaratitilinn ef Valur myndi tapa gegn Haukum. Það gekk hins vegar ekki og skoraði Fram sex fyrstu mörk leiksins.

„Í Vörninni vorum við að gera hluti sem við ætluðum ekki að gera og fengum á okkur línusendingar sem við ætluðum að stoppa. Þetta var bara lélegt hjá okkur. Ég veit ekki hvað það er, þessir stóru leikir eiga ekki að vera öðruvísi en aðrir leikir, en við komum ekki tilbúnar í dag. Öll vinnan sem er búin að fara í leikinn skilaði sér ekki."

Þessi lið mætast í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn og býst Sandra við jöfnu einvígi. 

„Þetta verður barátta frá fyrsta leik. Við gefum allt í þetta og vonandi skilar það sér."

Sandra skoraði 11 mörk í leiknum og þar af úr átta af níu vítaköstum gegn Guðrúnu Ósk Maríasdóttur, landsliðsmarkmanni. 

„Það þýðir ekki að hugsa hver sé fyrir framan sig, það er bara að hitta á markið," sagði Sandra að lokum. 

Fram 28:23 ÍBV opna loka
60. mín. Heiðrún Dís Magnúsdóttir (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert