Reynum að hefna fyrir Valsarana

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni í dag.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, stýrði sínum mönnum í ÍBV til þrettán marka sigurs í seinni leik liðsins í 8-liða úrslitum Áskorendakeppni Evrópu þegar rússneska liðið Krasnodar kom í heimsókn á eyjuna fögru, en leiknum lauk 41:28.

„Ég er mjög ánægður með hvernig við nálguðumst þetta, þeir byrjuðu af krafti og leiddu leikinn til að byrja með, við vorum trúir okkar skipulagi og áherslum og mölluðum þetta áfram,“ sagði Arnar en Rússarnir mættu af miklum krafti í leikinn.

Var Arnar orðinn eitthvað smeykur þegar farið var að líða á fyrri hálfleikinn og Rússarnir leiddu með þremur mörkum?

„Ég er eiginlega alveg hættur að verða smeykur, þetta er farið að tikka þannig inn hjá manni, sem betur fer. Þeir eru sprækir og eru með mjög efnilegt lið, þeir eru mjög ungir en mættu nú ekkert alltof margir í dag. Mér fannst þeir gera þetta mjög vel fyrstu tuttugu mínúturnar og toguðu okkur mikið út úr stöðum, sem við náðum að leiðrétta. Við tókum þá þegar við byrjuðum að spila okkur leik og fórum að malla inn auðveldum mörkum.“

Vorum að spila einn af okkar betri leikjum

Eyjamenn sóttu tveggja marka sigur til Rússlands og áttu þar mjög góðan leik að undanskildum 10 mínútum þar sem Rússarnir söxuðu hratt á forskot liðsins. Einvígið er 120 mínútur, er óhætt að segja að Eyjamenn hafi verið betri í 90 mínútur?

„Já, ég held að það sé ekki fjarri lagi, ég myndi segja það. Þeir komu með áhlaup úti í Rússlandi en við spiluðum virkilega vel þar. Vorum að spila einn af okkar betri leikjum, þar sem við vorum skynsamir og agaðir, við vorum flottir þar. Þeir náðu áhlaupi þar og voru einnig flottir fyrstu tuttugu mínúturnar í dag.“

Magnús Stefánsson og Theodór Sigurbjörnsson komu báðir inn í liðið í dag, það munaði heldur betur um þá.

„Maggi er frábær varnarmaður og leiðtogi í okkar varnarleik, hann les leikinn vel og kemur með lausnir. Hann er ótrúlega öflugur í því að benda á hluti sem mega betur fara og er góður í því. Teddi er auðvitað einn af betri leikmönnum á landinu og það munar um að fá hann inn. Mér fannst við klára þennan leik vel, það var margt jákvætt í þessu og ég fer sáttur á koddann í kvöld.“

Reynum að hefna fyrir það sem gerðist fyrir Valsarana

Það er nokkuð langt í næstu leiki hjá ÍBV en liðið mætir ÍR 13. apríl, hvernig verða næstu vikur nýttar í undirbúning fyrir það einvígi?

„Ég ætla að gefa frí núna, menn fá gott páskafrí og fá aðeins að anda eftir þessa törn, þetta hafa verið löng og mikil ferðalög. Síðan förum við í það að undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina, við eigum flott lið þar, ÍR-inga, við þurfum að vera klárir og vel undirbúnir fyrir það.“

Eyjamenn mæta annað hvort rúmenska liðinu Turda eða norska liðinu Fyllingen í undaúrslitum Áskorendakeppninnar og segir Arnar það spennandi tilhugsun að mæta Rúmenunum og hefna fyrir það sem henti Valsara þar í fyrra.

„Bæði þessi lið eru mjög góð, það verða því heldur betur alvöru viðureignir í undanúrslitunum, sem er mjög eðlilegt þegar komið er á þetta stig í þessari keppni. Eru ekki allir að vona að við fáum Rúmenana? Að við fáum að fara í eitt gott ferðalag og reynum að hefna fyrir það sem Valsararnir gengu í gegnum í fyrra, eigum við ekki að vona það líka bara?“ sagði Arnar að lokum en flestum er það ferskt í minni að Valsarar voru slegnir út úr Áskorendakeppninni á síðustu leiktíð eftir ömurlega frammistöðu dómara í viðureign Vals og Turda í Rúmeníu.

Eyjamann fagna eftir stórsigurinn.
Eyjamann fagna eftir stórsigurinn. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert