Haukasigur í framlengingu

Valskonan Diana Satkauskaite sækir að marki Hauka í leiknum í …
Valskonan Diana Satkauskaite sækir að marki Hauka í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar eru komnir í 2:1 í einvígi sínu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir 23:22-sigur í framlengdum leik í Valshúsinu í dag. Maria Pereira skoraði sigurmarkið einni og hálfri mínútu fyrir leikslok. 

Valskonur byrjuðu betur og komust í 4:1 í upphafi leiks. Haukar minnkuðu muninn í 4:3, en Valskonur náðu þá öðrum fínum kafla og héldu yfirhöndinni út allan hálfleikinn, þótt Haukar hafi nokkrum sinnum minnkað muninn í eitt mark. Staðan í hálfleik var 10:7, Val í vil.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði tvö víti í hálfleiknum og var helsta ástæða þess að munurinn varð aldrei meiri en þrjú mörk. Diana Satkauskaité skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum Vals í leiknum og leit mjög vel út.

Haukar skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og minnkuðu muninn í 10:9 og á 40. mínútu jafnaði Erla Eiríksdóttir í 12:12 og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 0:0 sem leikurinn var jafn. Erla skoraði svo 14. mark Hauka og kom þeim yfir í fyrsta skipti í leiknum, 14:13, þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður.  

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan 18:16, Haukum í vil. Lokamínúturnar voru æsispennandi og var staðan 19:18 fyrir Hauka þegar tvær mínútur voru eftir. Kristín Guðmundsdóttir skoraði þá gott mark og jafnaði í 19:19.

Maria Pereira fékk tækifæri til að koma Haukum yfir á vítalínunni, 40 sekúndum fyrir leikslok, en Lina Rypdal varði frá henni. Valskonur fóru illa að ráði sínu í sókninni sem fylgdi og Elín Jóna varði slakt skot Kristínar Guðmundsdóttur og því var framlengt.

Valskonur skoruðu tvö fyrstu mörkin í framlengingunni og komust í 21:19. Staðan eftir fyrri hálfleik í framlengingu var 22:21, en Haukar jöfnuðu í 22:22 í byrjun síðari hálfleiksins. Maria Perira skoraði svo sigurmarkið einni og hálfri mínútu fyrir leikslok. 

Valur 22:23 Haukar opna loka
70. mín. Leik lokið Misheppnuð sókn hjá Val og Haukar vinna!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert