Rússland og Noregur á HM

Espen Lie Hansen og félagar í Noregi komnir á HM.
Espen Lie Hansen og félagar í Noregi komnir á HM. IVAN MILUTINOVIC

Rússland og Noregur urðu í kvöld fyrstu löndin til að tryggja sér farseðilinn á heimsmeistaramótið í handbolta eftir seinni umspilsleikina sem fóru fram í kvöld. Rússar sigruðu Tékka sannfærandi á heimavelli á meðan Norðmenn töpuðu á útivelli fyrir Sviss en fóru samt sem áður áfram samanlagt.

Tékkland, sem vann fyrri leikinn með einu marki heima, hékk í Rússum nánast allan leikinn og þegar 13 mínútur voru eftir var staðan 23:21 fyrir Rússlandi. En þá skelltu Rússar í lás og Tékkum tókst ekki að skora mark það sem eftir var leiks. Lokatölur 29:21 Rússum í vil og samanlagt 55:48.

Leikur Sviss og Noregs var mjög kaflaskiptur. Noregur vann fyrri leik liðana með 6 mörkum og því þurfti allt að ganga upp hjá Svisslendingum ef þeir ætluðu sér að komast áfram. Svisslendingar höfðu frumkvæðið framan af en Norðmenn komu til baka og höfðu forystu 16:15 í hálfleik. Eftir hálfleik tók við frábær kafli hjá Sviss sem komst mest fjórum mörkum yfir. En Norðmenn héldu ró sinni og misstu Svisslendinga aldrei of langt frá sér. Lokatölur 33:30 fyrir Sviss sem dugði ekki til því Noregur vann leikina samanlagt 62:59.      

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert