Bjöggi er bestur þegar umræðan er neikvæð

Líklegt er að Björgvin Páll Gústavsson og Aron Rafn Eðvarðsson …
Líklegt er að Björgvin Páll Gústavsson og Aron Rafn Eðvarðsson verji mark Íslands á HM. mbl.is/Hari

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, er spenntur að sjá íslenska karlalandsliðið á HM sem hefst í vikunni.

Hann segir liðið renna blint í sjóinn undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar. „Þetta er lið sem er enn í endurnýjun og hún er búin að standa yfir svolítið lengi. Guðmundur hefur tekið hana skrefi lengra og það er því eðlilegt að við rennum blint í sjóinn,“ sagði Snorri í samtali við Morgunblaðið. Hann segir frammistöðu liðsins í undirbúningsleikjum síðustu daga kaflaskipta.

„Þetta er búið að vera svolítið kaflaskipt en það er eðlilegasti hlutur í heimi þegar landslið er að koma saman. Menn eru að koma úr mismunandi áttum og eiga eftir að spila sig betur saman. Það væri forvitnilegt að sjá okkur mæta Noregi í dag, nú þegar liðið er komið lengra. Það er hægt að segja að lykilmenn hafi átt eitthvað inni, en ég vil ekki lesa of mikið í það.“

Fyrstu leikir Íslands á HM eru á móti Króatíu og Spáni og ljóst að það verður við ramman reip að draga. „Fyrstu leikirnir á HM eru gríðarlega erfiðir og það gæti vel verið að liðið hlypi á vegg. Við getum líka alveg komið á óvart og strítt þessum liðum. Það kæmi mér allavega mjög mikið á óvart ef við myndum fá skell í fyrsta leik á móti Króatíu. Ef fólk er að setja pening á þetta er ekki óeðlilegt að sá peningur fari á Króatíu og Spánn. Ef ég þekki Gumma þjálfara rétt er hann hins vegar alls ekki kominn þangað og það er pottþétt að hann og strákarnir trúa á að hægt sé að vinna Króatíu og Spán.“

Markvarsla íslenska liðsins í leikjunum þremur í Gjensidige-bikarnum var ekki góð, en Snorri er orðinn þreyttur á neikvæðri umræðu um markmenn íslenska liðsins.

„Mér finnst við alltaf vera að velta okkur upp úr þessu. Er ekki kominn tími á að tala um eitthvað annað? Ég get rétt ímyndað mér að markmennirnir séu orðnir þreyttir á þessari umræðu því ég var orðinn þreyttur á þessari umræðu þegar ég var sjálfur í liðinu. Það er samt kannski ágætt að tala um að markvarslan sé léleg því þá er Bjöggi oft bestur. Ég veit að þetta fer í taugarnar á honum og þeim öllum og vonandi nýtist þetta bara vel.“

Sjá allt viðtalið við Snorra Stein í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert