Búinn að semja við þýsku meistarana

Mads Mensah.
Mads Mensah. AFP

Þýska handknattleiksfélagið Rhein-Neckar Löwen staðfesti í gær að danski landsliðsmaðurinn Mads Mensah Larsen muni yfirgefa liðið eftir tímabilið.

Nú liggur fyrir hver verður næsti áfangastaður Danans en þýska meistaraliðið Flensburg greinir frá því á vef sínum að Mads Mensah muni ganga í raðir félagsins í sumar og er búinn að skrifa undir samning sem gildir til ársins 2022.

Mads Mensah er 28 ára gamall, kom til Rhein-Neckar Löwen frá danska liðinu Aalborg árið 2014 og hefur í tvígang orðið þýskur meistari með liðinu.

Hann hefur spilað með landsliði Dana frá árinu 2011 og varð ólympíumeistari með því undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar árið 2016 og heimsmeistari í janúar á þessu ári.

mbl.is