KA vann Akureyrarslaginn

Úr leik Þórs og KA í dag.
Úr leik Þórs og KA í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA hafði betur, 21:19, í nágrannaslagnum gegn Þór í Íþróttahöllinni á Akureyri í úrvalsdeild karla í handknattleik í dag.

Eins og alltaf þegar þessi lið mætast var hátt spennustig á vellinum. Jafnræði var með liðunum í upphafi en um miðjan fyrri hálfleik voru heimamenn komnir með fjögurra marka forystu þegar Valþór Atli kom Þór í 8:4. KA-menn tóku þá leikhlé og minnkuðu muninn hægt og bítandi. Staðan var 12:12 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri. Mikil barátta og munurinn á liðunum aldrei meiri en tvö mörk. Jovan Kukobat var flottur í liði Þórs og átti oft frábærar markvörslur á mikilvægum augnablikum. Nicolas Satchwell, markmaður KA, átti líka fínan seinni hálfleik. Staðan var 19:20 fyrir KA-menn þegar 35 sekúndur voru eftir af leiknum. Þórsarar fengu eina sókn til að jafna en ruðningur sem var dæmdur á Gísla Jörgen gerði út um leikinn. Andri Snær Stefánsson skoraði svo lokamark leiksins og lokatölur 19:21 KA-mönnum í vil.

Eins og oft áður í vetur gekk varnarleikur heimamanna vel. Þar má nefna Ingimund Ingimundarson sérstaklega sem hefur greinilega engu gleymt. Hann átti frábæran leik með fimm varin skot. Sóknarleikur Þórs var því miður ekki á nógu háu plani fyrir þessa deild og það varð þeim að falli í dag. 

Áki Egilsnes var markahæstur KA-manna með sjö mörk en hjá Þórsurum var Ihor Kopishinsky markahæstur með sex mörk. Satchwell varði 12 skot í marki KA en Jovan Kukobat varði 14 bolta fyrir Þórsara.

Eftir leikinn eru KA-menn með 12 stig en Þór er enn með fjögur stig í næstneðsta sæti deildarinnar.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þór 19:21 KA opna loka
60. mín. KA tekur leikhlé
mbl.is