Aron Evrópumeistari í þriðja sinn

Aron Pálmarsson, hér í bakgrunni, og liðsfélagar hans í Barcelona …
Aron Pálmarsson, hér í bakgrunni, og liðsfélagar hans í Barcelona höfðu ærna ástæðu til þess að fagna í dag. AFP

Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í Barcelona unnu í dag Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla með gífurlega öruggum 36:23 sigri gegn Álaborg í úrslitaleik í Köln í Þýskalandi. Þetta er í þriðja sinn sem Aron vinnur titilinn.

Aron komst ekki á blað í dag en þetta er í fyrsta sinn sem hann vinnur Meistaradeildina með Barcelona. Áður hafði hann unnið þennan eftirsóknarverðasta bikar Evrópu tvisvar sinnum með þýska liðinu Kiel; árin 2010 og 2012, í bæði skiptin undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Álaborg byrjaði leikinn betur og komst snemma leiks í þriggja marka forystu, 1:4. Eftir það hristu Börsungar af sér slenið. Eftir að hafa lent 2:5 undir skoraði Barcelona næstu sjö mörk og var þar með komið með fjögurra marka forystu, 9:5.

Eftir það var ekki aftur snúið og komst Álaborg ekki nær en þremur mörkum frá spænska stórveldinu það sem eftir lifði leiks, og gerðist það í fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik var 16:11 og Börsungar gengu vægast sagt áfram á lagið í þeim síðari þar sem forystan jókst í sífellu.

Seint í leiknum komst Barcelona mest í 13 marka forystu og vann að lokum með þeim mun, 36:23.

Barcelona hefur nú unnið Meistaradeildina 10 sinnum, sem er metfjöldi sigra í keppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert