Ómar frábær þegar Magdeburg tryggði þriðja sætið

Ómar Ingi Magnússon hefur átt frábært tímabil í liði Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon hefur átt frábært tímabil í liði Magdeburg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn þegar lið hans Magdeburg vann öruggan 27:22 útisigur á Rhein Neckar Löwen í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í dag. Með sigrinum tryggði Magdeburg sér þriðja sætið í deildinni.

Ómar Ingi skoraði sjö mörk og gaf þrjár stoðsendingar að auki í sigri dagsins.

Fyrir leik hefðu ljónin í Rhein Neckar Löwen með sigri getað velgt Magdeburg undir uggum og saxað á forskot þeirra, þar sem Löwen er í fjórða sæti.

Með tapi í dag er hins vegar ljóst að Löwen er fimm stigum á eftir Magdeburg þegar aðeins tveir leikir eru eftir í þýsku 1. deildinni.

Magdeburg endar því í þriðja sæti, þar sem Kiel og Flensburg í efstu tveimur sætunum eru löngu stungin af og berjast sín á milli.

Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki fyrir Löwen í dag en gaf tvær stoðsendingar og stal einum bolta í vörninni.

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla.

mbl.is