Danir knúðu fram sigur

Mikkel Hansen og félagar í danska landsliðinu lögðu Svía að …
Mikkel Hansen og félagar í danska landsliðinu lögðu Svía að velli í kvöld. AFP

Danir unnu nauman sigur á Svíum í kvöld, 31:30, þegar liðin tvö sem léku til úrslita um heimsmeistaratitil karla í handknattleik í janúarmánuði áttust við í vináttulandsleik í Hilleröd í Danmörku.

Svíar voru lengi vel yfir í leiknum, komust í 14:10 og voru yfir, 15:13, í hálfleik. Danir náðu ekki að komast yfir fyrr en tíu mínútur voru eftir og náðu að knýja fram sigurinn í lokin.

Danir og Svíar eru á leið á Ólympíuleikana í Tókýó og þar verða liðin einmitt saman í riðli en mætast ekki fyrr en í lokaumferð riðlakeppninnar 1. ágúst. Danir unnu úrslitaleik liðanna á HM í Egyptalandi 31. janúar, 26:24.

Dönsku heimsmeistararnir urðu fyrir því áfalli að bæði Morten Olsen og Emil Jacobsen meiddust í leiknum og óvíst er hvort þeir verða klárir í slaginn í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert