Förum í heitan pott og spilum rólegar níu holur

Kári Kristján Kristjánsson skorar af línunni gegn Haukum í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson skorar af línunni gegn Haukum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði ÍBV, var augljóslega ánægður með sigur sinna manna í kvöld en liðið er nú komið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik þar sem liðið spilar við Val.

ÍBV vann sjö marka sigur á Haukum í kvöld í fjórða leik liðanna og ÍBV vann einvígið því 3:1.

„Tilfinningin er frábær, við náðum einhvern veginn aldrei að slíta þá frá okkur, við erum með þá í armlengd frá okkur. Þeir eru það gott lið að ef við hefðum gefið þeim eitthvað, þá hefðu þeir bitið á og þetta orðið erfitt, eins og gerðist á Ásvöllum í síðasta leik. Við vorum með 17 tæknifeila þar og þeir drepa okkur, það var annað uppi á teningnum í dag, við vorum beittir allan tímann,“ sagði Kári að leik loknum en honum var létt.

„Við náðum að dreifa spilinu betur en Haukar, menn urðu þreyttir hinu megin og við náðum að dreifa spiltímanum betur. Menn hjá okkur eins og Ásgeir Snær, Sigtryggur er ekki með og Arnór klárar stóran hluta leiksins. Við erum með Elmar frábæran í stóru hlutverki, Robbi er kóngurinn í vörninni. Þetta mjög gott, hvernig við kláruðum þetta,.“

Eyjamenn halda dampi vel í síðari hálfleik og hleypa Haukum aldrei nálægt því að jafna leikinn.

„Það var alveg tvisvar þrisvar sem maður fékk í magann, þeir minnkuðu niður í þrjú mörk og síðan voru 10 mínútur eftir og þetta bara fjögur mörk. Það getur mikið gerst á 10 mínútum, maður var með smá pílu í maganum, við ætluðum að gera betur en við gerðum á Ásvöllum að halda betur í boltann í forystunni. Við gerðum það heilt yfir en ég verð að minnast á það að Svenni kemur frábær inn í seinni hálfleik, framlag frá liðinu var rosalega stórt. Það er geggjað að fara inn í úrslitaeinvígið vitandi það að hópurinn er svona þéttur.“

Eyjamenn voru vel undir í markvörslunni í dag en vinna samt leikinn með sjö marka mun, voru þeir svona mikið betri á öðrum sviðum?

„Við erum með sjö bolta en það er fullt hlutum sem þú getur æft, síðan er fullt af hlutum sem þú getur ekki æft. Þú æfir ekki ástríðu, þú æfir ekki að berjast, þú æfir ekki það að hata að tapa. Þetta eru hlutir sem við vorum að tékka í, auðvitað eru allir íþróttamenn með þetta en það er list að hópurinn nái saman á þessi hugtök. Það gerðum við og vorum frábærir.“

„Það að fá fólkið og húsið með sér það er eitthvað sem maður fattar ekki alveg þegar maður er að horfa en það gefur geðveikt mikinn byr í seglin.“

Eyjamenn fá Val í úrslitaeinvíginu, sem eru allt öðruvísi lið en Haukar, eru þeir tilbúnir í þann slag?

„Nú förum við í heitan pott og spilum rólegar níu holur, allir að koma sér í gang, ná sér góðum. Valur er lið sem keyrir ótrúlega mikið og við áttum okkur á því, þeir eru deildarmeistarar og bikarmeistarar. Þeir eru liðið til að vinna, við erum að fara í úrslit og þetta verður ekkert eitthvað gera sitt besta. Við ætlum bara að vinna helvítis Íslandsmeistaratitilinn. Það er nokkuð ljóst.“

mbl.is