Kýs Vestmannaeyjar frekar en 20.000 manna hallir

Gunnar Magnússon á hliðarlínunni gegn ÍBV.
Gunnar Magnússon á hliðarlínunni gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég á von á hörkuleik,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handbolta og tímabundinn landsliðsþjálfari karlalandsliðsins, í samtali við mbl.is um borð í Herjólfi á leiðinni til Vestmannaeyja á þriðja leik ÍBV og Hauka í úrslitaeinvígi karla.

ÍBV verður Íslandsmeistari með sigri í kvöld, þar sem liðið er með 2:0-forskot í einvíginu. Gunnar hefur þjálfað bæði lið og féll úr leik gegn Haukum í undanúrslitum með Aftureldingu.

„Það er pressa á ÍBV og það er mikið undir. Að sama skapi eru Haukarnir ótrúlega vel mannaðir. Þeir er búnir að eiga kafla í þessari seríu. Eigum við ekki að segja Haukarnir ná því í þriðju tilraun að eiga góðar 60 mínútur, sem þarf til að gera þetta að alvöruleik,“ sagði hann.

Gunnar Magnússon þjálfaði áður Hauka.
Gunnar Magnússon þjálfaði áður Hauka. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gunnar segir ÍBV sigurstranglegra liðið, en að leikurinn í kvöld verði ansi erfiður fyrir Eyjamenn. Haukarnir rétt náðu í úrslitakeppnina, en liðið endaði í áttunda sæti deildarinnar.

„Það er ekki óeðlilegt að ÍBV sé sigurstranglegra liðið, en miðað við mannskapinn hjá Haukum held ég þeir eigi meira inni, til að gera þetta að alvörueinvígi.

Þeir eru með einn besta mannskapinn í deildinni. Þeir hafa verið upp og niður í vetur og líka í úrslitakeppninni. Þeir voru flottir framan af, en hafa nú dalað á móti ÍBV. Þeir eiga nóg inni og þeir galopna þetta með sigri í dag,“ sagði hann.

Gunnar viðurkenndi að það væri erfitt að vera á leiðinni til Eyja sem áhorfandi, en ekki sem þjálfari útiliðsins, en Haukar unnu Aftureldingu 3:2, í æsispennandi einvígi í undanúrslitum.

„Það er auðvitað súrt. Við vildum fara í þetta úrslitaeinvígi á móti ÍBV. Við töldum okkur geta gefið þeim alvörueinvígi. En það fór eins og það fór og við nýtum þessa reynslu fyrir næsta tímabil,“ sagði hann.

ÍBV varð Íslandsmeistari undir stjórn Gunnars árið 2014 og hann segir ekkert jafnast á við stemninguna í Vestmannaeyjum þegar handboltaliðinu gengur vel.

Og varð Íslandsmeistari með ÍBV.
Og varð Íslandsmeistari með ÍBV. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ástæðan fyrir því að ég er í Herjólfi núna er sú að þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir, að horfa á handbolta í Vestmannaeyjum. Stemningin þar er einstök og það jafnast ekkert á við hana. Þú getur farið út í heim í 20.000 manna hallir, en það er ekki eins og stemningin í Eyjum.“

Gunnar spáir því að úrslitin í kvöld ráðist í framlengingu, eftir æsispennu. „Ég segi að þetta fari í framlengingu. Ég er ekki viss hvaða lið vinnur framlenginguna, en ég held Haukarnir séu ekki hættir. ÍBV þarf að hafa mjög mikið fyrir því að vinna Hauka í kvöld,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert