Vorum ekki með í seinni hálfleik

Austurríska liðið fagnar sigrinum.
Austurríska liðið fagnar sigrinum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þjálfari austurríska liðsins Krems, Ibish Thaqi, var ánægður með að klára einvígið gegn ÍBV í Evrópubikarnum í handknattleik í dag er liðin mættust í Vestmannaeyjum. Hann segir grunninn að sigrinum hafa verið lagðan í fyrri hálfleik þar sem liðið spilaði mjög góða vörn. Lokatölur í dag 32:32 og í einvíginu 62:60.

„Fyrri hálfleikurinn var virkilega góður, við spiluðum frábæra vörn, það var aðalatriðið í dag. Í seinni hálfleik vorum við ekki með, við vorum í veseni varnarlega og líka sóknarlega, síðustu tíu mínúturnar fundum við okkur aftur og þess vegna kláruðum við þetta,“ sagði Thaqi eftir leik en hann sagði leikmenn sína hafa haldið að einvígið væri búið í hálfleik.

„Leikmennirnir héldu það klárlega,“ sagði Thaqi.

Mjög fallegt hér

Stemningin á pöllunum í Vestmannaeyjum var góð og sagði Thaqi það hafa verið erfitt fyrir sitt lið að eiga við.

„Það er mjög fallegt hérna og stemningin var mjög góð. Okkur leið vel hér fyrir leik og líður vel eftir leik af því að við kláruðum þetta.“

Hvað gerðu Eyjamenn vel til að komast aftur inn í einvígið í byrjun síðari hálfleiks?

„Við vorum í mjög miklum vandræðum með þá á þessum upphafsmínútum í seinni hálfleik, við náðum að halda ró okkar og vissum að við áttum þessi tvö mörk frá fyrri leiknum í Krems. Mér fannst þetta alls ekki frábær leikur hjá okkur, en við tökum sigurinn,“ sagði Thaqi en hann sagði sína menn hafa átt í vandræðum með ÍBV vörnina.

„Við vorum í veseni með 5-1 vörnina í fyrri hálfleiknum úti, en nú vissum við af því að þeir spila þessa vörn og gátum undirbúið okkur betur.“

Thaqi segist hafa þekkt nokkra leikmenn fyrir einvígið.

„Ég man eftir Ísak og línumanninum (Kára Kristjáni) og svo einnig Sigtryggi sem spilaði í Austurríki. Þetta er gott lið, mjög sterkir og þeir spiluðu virkilega vel í Krems. Í fyrri hálfleik í dag náðu þeir sér ekki á strik.“

Væri um miðja deild

Hvar myndi Thaqi staðsetja ÍBV meðal liðanna í Austurríki?

„Í ár höfum við verið í vandræðum í deildinni, ég er ekki viss en ég held að þeir væru um miðja deild, þeir eru með mjög ungt lið en gott og ég held að eftir 2 ár verði þeir töluvert betri,“ sagði sá kósovóski sem vildi þó ekki segja að það væri honum ofarlega í huga að vinna þessa keppni.

„Ég er bara með hugann við leikinn á laugardaginn í deildinni, ég fer svo að hugsa um næstu umferð í febrúar.“

Thaqi hefur verið með Krems liðið lengi og stýrt þeim til tveggja meistaratitla í Austurríki og einnig til sigurs í bikarkeppninni, hvert stefnir þetta lið hans?

„Þetta er glænýtt lið, við þurfum tíma en ég held að eftir 4-5 mánuði verðum við betri, þetta er of kaflaskipt eins og sést í dag þar sem við spilum vel í fyrri hálfleik og illa í seinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert