Fyrrverandi landsliðsmenn vilja losna við Alfreð

Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands.
Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands. AFP/Ina Fassbender

Fyrrverandi landsliðsmenn Þýskalands í handknattleik vilja fá nýjan þjálfara fyrir karlalandslið Þjóðverja.

Alfreð Gíslason er þjálfari Þýskalands sem hafnaði í fjórða sæti á Evrópumótinu þarlendis í janúar á þessu ári. 

Þjóðverjar undirbúa sig nú fyrir umspil Ólympíuleikana þar sem Þýskaland er með Króatíu, Austurríki og Alsír í riðli, en tvö efstu liðin fara á Ólympíuleikana. 

Í umfjöllun handball-world kemur fram að þýska handknattleikssambandið standi fast við bakið á Alfreð og vilji að hann haldi áfram með landsliðið. 

Hins vegar hafa nokkrir fyrrverandi landsliðsmenn hafið umræðu um að breyting þurfi mögulega að eiga sér stað. 

Hvernig viljum við spila handbolta?

Goðsagnirnar Stefan Kretzschmar og Pascal Hens eru báðir á því máli að breyting þurfi að eiga sér stað. 

Kretzschmar tók fram að sóknarleikur Þjóðverja hafi verið of lélegur. Þá sagði Hens að það vanti mikið upp á að Þjóðverjar nái að vinna til verðlauna á stórmóti. 

Samkvæmt Kretzschmar er spurningin þessi: „Hvernig handbolta viljum við spila árið 2027, hvað hentar liðinu okkar og strákunum sem eru að koma upp í landsliðið?“ 

Stingur Kretzscmar upp á að þýska handknattleikssambandið ráði frekar Bennet Wiegert, þjálfara Ómars Inga Magnússonar, Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og Janusar Daða Smárasonar hjá Magdeburg. 

Þjóðverjar eru með marga af efnilegri leikmönnum heims en liðið vann Evrópumót leikmanna 21 árs og yngri nokkuð þægilega á heimavelli í fyrra. Ísland hafnaði í þriðja sæti á sama móti. 

Kretzschmar og Hens voru lykilmenn í þýska landsliðinu á árum áður og Hens varð heimsmeistari með því árið 2007. Kretzschmar lék undir stjórn Alfreðs með Magdeburg í sjö ár og þeir unnu þar saman þýska meistaratitilinn árið 2001 og Meistaradeild Evrópu árið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert