Fórum allir í smá naflaskoðun

Daníel Freyr Andrésson verst Jakobi Inga Stefánssyni í kvöld.
Daníel Freyr Andrésson verst Jakobi Inga Stefánssyni í kvöld. Kristinn Magnússon

Daníel Freyr Andrésson, markvörður FH í handknattleik, átti stórleik í kvöld þegar liðið vann Gróttu 29:22.

Daníel Freyr varði 19 skot, þar af eitt vítaskot og var klárlega maður leiksins. Í miðju viðtali við hann fóru að heyrast mikil fagnaðarlæti þegar í ljós kom að KA vann Val norður á Akureyri, sem þýddi að FH-ingar eru deildarmeistarar þar sem Valur getur ekki náð FH að stigum í lokaumferðinni á föstudag.

Þú áttir stórleik í kvöld með 19 varin skot. Hvernig var undirbúningi hagað fyrir þennan leik eftir smá lægð sem FH liðið hefur verið í undanfarið?

„Það er rétt að þetta var talsvert betra en í síðustu leikjum hjá okkur. Við fórum allir í smá naflaskoðun eftir leikina gegn ÍBV og Haukum og jukum bara ákefðina og fórum upp um nokkra gíra fyrir leikinn í kvöld. Þetta var ekki búið að vera nægilega gott.,“ sagði Daníel Freyr í samtali við mbl.is.

Nú eruð þið deildarmeistarar eins og heyrist glögglega í félögum þínum. Áður en þú færð að fara niður að fagna er þá ekki næsta markmið að verða Íslandsmeistarar?

„Klárlega. Núna er bara það markmið næst og það er bara mjög gott að þessi titill sé kominn fyrir síðasta leikinn gegn KA,“ sagði markvörðurinn að lokum áður en hann hljóp til að fagna með liðsfélögum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert