Vilt aldrei lenda í lægðum

Aron Pálmarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Pálmarsson, fyrirliði FH í handknattleik, var að vonum glaður með að liðið væri búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn fyrir síðustu umferð úrvalsdeildarinnar sem fer fram á föstudag.

FH varð deildarmeistari í kvöld með því að sigra Gróttu á meðan Valsmenn töpuðu fyrir KA á Akureyri.

Þetta er væntanlega annar af tveimur titlum sem þið ætlið að vinna úr þessu?

„Já það er klárlega stefnan. Við förum bara jákvæðir og ferskir inn í úrslitakeppnina. Við mættum miklu betur til leiks í dag heldur en í síðustu leiki. Við ræddum saman eftir leikinn gegn Haukum og okkur fannst ekki vanta mikið.

Við þurftum bara að sparka aðeins í okkur sem er kannski eðlilegt þar sem við erum búnir að vera á toppnum og spila vel í allan vetur. Síðan kom smá lægð og við snerum því vel við í kvöld,“ sagði Aron í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður út í leikinn í kvöld hafði Aron þetta að segja:

„Ég er ánægður með leikinn í kvöld og hvernig við svöruðum síðustu leikjum. Við hefðum getað spilað aðeins betur á köflum og nýtt færin betur og þar fer ég fremstur í flokki. En eins og ég segi ég er ánægður með karakterinn og kraftinn í liðinu í kvöld.“

Þá opnast bara færi fyrir aðra

Þjálfarinn hrósaði þér áðan fyrir góðan varnarleik í kvöld en sóknarlega fór ekki mikið fyrir þér. Hvernig er fyrir leikmann að mæta í leik þar sem þú veist að það er nánast verið að fara leggja þig í einelti í sókninni?

„Satt að segja hugsa ég ekki mikið út í það. Maður tekur eftir því þegar leikirnir byrja. Ef menn ætla að tví- og þrímenna á mig þá opnast bara færi fyrir aðra. Við erum sterkt lið og með sterka leikmenn sem nota þá bara plássið sem myndast.

Ég mun samt alltaf fá mín færi og fá tækifæri til að spila minn leik og það er enginn annar en ég sem getur komið í veg fyrir það. Þannig að ég hugsa ekki mikið út í það fyrir fram.“

Myndir þú segja að það hafi verið fínt að fá smá spark í rassinn í síðustu þremur leikjum í ljósi þess að nú eruð þið deildarmeistarar fyrir síðasta leikinn og getið notað leikinn gegn KA til að fínpússa ykkur fyrir úrslitakeppnina?

„Já, það er hægt að segja það núna fyrst þetta er niðurstaðan. Auðvitað vill maður aldrei lenda í svona lægðum eins og við lentum í. Sem betur fer hafa lægðirnar verið fáar hjá okkur. Vonandi kom þetta bara á réttum tíma og við notum þetta á jákvæðan hátt eins og við sýndum hér í kvöld.

Það skiptir máli á móti þessum betri liðum að þú mátt ekkert slaka á því þá er þér refsað eins og sást á móti Haukum. Við þurfum að koma í veg fyrir að slíkt gerist,“ sagði Aron að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka