Get ekki hagað lífi mínu eftir því hvað öðrum finnst

Leonharð Þorgeir Harðarson í leiknum í kvöld.
Leonharð Þorgeir Harðarson í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH tryggði sér í kvöld deildarmeistaratitilinn í handknattleik karla eftir 29:22 sigur á Gróttu. Á sama tíma töpuðu Valsmenn fyrir KA á Akureyri og geta því ekki náð FH að stigum.

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var að vonum kampakátur með niðurstöðuna og hafði þetta að segja:

„Ég er mjög ánægður með niðurstöðuna í leiknum og það að við erum deildarmeistarar.“

Það var allt annað FH-lið sem mætti hér í kvöld í samanburði við leikinn gegn Haukum í síðustu viku?

„Það er hárrétt. Við erum búnir að fara vel yfir okkar mál enda vorum við verulega svekktir með okkar frammistöðu í síðustu leikjum og við svöruðum því í kvöld. Það eru samt fleiri leikir fram undan sem við þurfum að svara fyrir,“ sagði hann.

Næsti leikur skiptir svo sem ekki máli í ljósi þess að þið eruð deildarmeistarar. Hvernig leggur þú þann leik upp?

„Við mætum í þann leik eins og alla leiki í vetur. Við höfum lagt upp með það að vera sigurlið og það verður engin breyting á því þótt við séum búnir að vinna deildina. Við ætlum að vinna KA á heimavelli,“ sagði Sigursteinn.

Fyrirliðinn Aron Pálmarsson átti erfitt uppdráttar í sóknarleiknum í kvöld.

Hvernig leggja þjálfarar upp leiki þar sem besti leikmaðurinn er nánast útilokaður frá leiknum?

„Ég vil hrósa Aroni fyrir frábæran varnarleik í kvöld. Það er varnarleikurinn sem lagði grunninn að þessum sigri í kvöld. Annars erum við vanir því að Aron fái mikla athygli þannig að þá fá bara aðrir að njóta sín. Þetta snýst um að vinna leikina og á meðan við vinnum þá erum við sáttir,“ sagði hann um fyrirliðann.

Nú hefur þú verið mikið gagnrýndur undanfarið og hafa menn jafnvel velt því upp hvort þú sért rétti maðurinn til að stýra liði FH. Ertu sammála þessari gagnrýni?

„Ég get ekki sagt neitt um það því ég reyni að útiloka alla slíka gagnrýni. Ég reyni bara að vinna mína vinnu og reyni að gera það samviskusamlega. Við erum númer eitt og erum búnir að vera númer eitt ansi lengi.

Það hlýtur að segja eitthvað. Ég held bara áfram að leggja mig fram eins og ég hef gert og ég get ekki hagað mínu lífi eftir því hvað öðrum finnst," sagði Sigursteinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka