Hefði verið algjört kraftaverk

Einar Jónsson og Haraldur Þorvarðarson á hliðarlínunni í dag.
Einar Jónsson og Haraldur Þorvarðarson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við vissum að þetta yrði erfitt einvígi,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram í handbolta, í samtali við mbl.is eftir að liðið féll úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins eftir tap á heimavelli gegn Val.

Framliðið hefur verið þunnt skipað síðustu vikur vegna meiðsla og það setti strik í reikninginn.

„Við höfum nánast verið að stilla upp nýju liði í hverjum leik síðustu 6-7 leiki. Við vorum virkilega óánægðir með okkur eftir síðasta leik en það var allt annað uppi á teningnum núna, þrátt fyrir úrslitin.

Hugarfarið var mun betra núna og við vorum að spila vel á mörgum köflum. Ég er ósáttastur með hvað við fórum illa með mörg upplögð marktækifæri. Fyrir utan það vorum við að spila vel. Varnarleikurinn var í lagi en markvarslan var í basli,“ sagði Einar.

„Valsmenn eru flottir, með geggjaðan þjálfara og þeir fara langt. Ég hef alltaf trú á mínum leikmönnum en maður þarf að vera raunsær. Það hefði verið algjört kraftaverk ef við hefðum farið áfram í þessu einvígi. Ef allt hefði gengið upp hefðum við kannski náð að stela einum leik,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert