Það má alveg vera smá rifa

Kári Kristján Kristjánsson í leiknum í dag.
Kári Kristján Kristjánsson í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Lið ÍBV fer sært til Vestmannaeyja eftir tap gegn FH, 36:31, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi liðanna í Íslandsmóti karla í handbolta. Næsti leikur liðanna er á fimmtudag.

Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði ÍBV, var með öll svör á reiðum höndum þegar mbl.is leitaði til hans og spurði hvað hafi valdið því að hans lið hafi tapað gegn FH í Kaplakrika í dag. Kári hafði þetta að segja:

„Við fáum á okkur 20 mörk í fyrri hálfleik og 16 mörk í þeim síðari og markvarslan var engin. Það er okkar banabiti. Við erum vanir að byggja okkar leik á sterkri vörn og keyra á hraðaupphlaupum. Það gekk ekki í dag og því fór sem fór.“

Hvað var gott í ykkar leik?

„Við auðvitað skorum 15 mörk í fyrri hálfleik. Það er gott. Síðan fáum við fullt af dauðafærum sem við klikkuðum á.“

ÍBV er undir í þessu einvígi. Það er ekki gott Kári.

„Another on bites the dust. Þetta er stór sería og þú þarft að vinna þrjá leiki og þó þú sért kominn einum leik undir er bara „what ever“ í þessu. Spilum í eyjum á fimmtudag og það verður frábært og það verða læti þar.“

Hvað þarf til að Eyjamenn snúi þessu við?

„Það þarf ekkert mikið, eiginlega bara sáralitið. Við þurfum að koma okkur í aðeins betri færi og kjörsóknir, aðeins betri markvörslu og þá erum við bara góðir.“

Markvarslan var ekki góð í dag og hún er búin að vera upp og ofan í vetur. Markvarslan verður að vera góð í svona leikjum ekki satt?

„Jú, ef við teljum leikina frá undanúrslitum í bikar þá erum við búnir að detta niður í kannski tveimur leikjum í markvörslu. Það var bikarúrslitaleikurinn og þessi leikur. Annars er markvarslan bara búin að vera fín eftir áramót.

Við þurfum bara að halda dampi í markinu og þetta má ekki vera þannig að þeir séu báðir kaldir og það er bara krafa sem við gerum að þeir séu ekki báðir kaldir í svona leikjum. En ég er bara fullur tilhlökkunar fyrir leiknum á fimmtudag.“

Þannig að markinu verður lokað á fimmtudag?

„Já, og það má alveg vera smá rifa, það ætti að duga,“ sagði Kári Kristján í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert