Aron: 36 mörk gegn ÍBV er frábært

Aron Pálmarsson sækir að Eyjamönnum í gær.
Aron Pálmarsson sækir að Eyjamönnum í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er mjög sáttur við þennan leik. Mér fannst við spila mjög vel á báðum endum vallarins. Sóknarlega skorum við mikið af mörkum og þeir áttu engin svör við okkur þar. 36 mörk gegn ÍBV er frábært,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði FH, eftir sigur á ÍBV í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmóti karla í handbolta í Kaplakrika í gær.

„Varnarlega spiluðum við mjög vel en það er bara hrikalega erfitt að eiga við Kára, Elmar og þessa stráka. Þeir eru frábærir í handbolta en ég hleypi þeim kannski of mikið inn í leikinn síðustu mínúturnar með því að henda boltanum í eitthvað rugl í stað þess að klára leikinn.“ 

Markvarslan hefði mátt vera betri í dag eða hvað?

„Þetta slapp í dag. Danni á ekki marga slæma leiki þannig að þetta er allt í lagi. Það er gott að eiga hann inni á seinni stigum. Þú sérð að ef Danni hefði átt sinn leik þá hefðum við lokað þessu miklu fyrr.“

Ef við reynum að finna eitthvað neikvætt í ykkar leik þá missið þið forskotið niður í tvö mörk í stöðunni 25:23. Það hefði getað orðið slys?

„Jú, klárlega en þetta er líka þannig að við erum búnir að vera yfir allan leikinn og þegar þú ert kominn á þetta stig í keppninni þá er eðlilegt að ÍBV komi með alvöru áhlaup. Það er hrikalega erfitt að slíta þá frá sér og það var við þessu búið. Það jákvæða er samt að það vorum við sem vorum að hleypa þeim inn í þetta frekar en að þeir væru að koma sér sjálfir inn í leikinn.“

Eitthvað sem að FH þarf að laga fyrir næsta leik?

„Í fljótu bragði ekkert sérstakt. Auðvitað alltaf eitthvað. Við þurfum bara að hafa hausinn í lagi og Danni kemur sterkari inn í næsta leik og halda okkar dampi.“

Hraðinn í leiknum var gríðarlegur. Verður ekki erfitt að halda í orkuna og fókusinn þegar lætin eru svona mikil?

„Við erum í fínu formi og ég er ánægður með okkur. Það er ekki spilað það þétt, næsti leikur er á fimmtudaginn og Steini (Sigursteinn Arndal) er ekki Interval-hlaup milli leikja þannig að ég hef engar áhyggjur af því. Breiddin okkar er líka fín þannig að þetta verður aldrei vandamál strax, kannski í fimmta leik,“ sagði Aron í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert