Sumarið er rétt að byrja

Sigursteinn Arndal varð Íslandsmeistari með FH.
Sigursteinn Arndal varð Íslandsmeistari með FH. mbl.is/Eyþór Árnason

Sigursteinn Arndal var valinn besti þjálfari Íslandsmóts karla í handknattleik á lokahófi HSÍ í Skútuvogi í dag.

Sigursteinn gerði FH að Íslands- og deildarmeistara.

FH-liðið fékk Aron Pálmarsson til liðs við sig fyrir tímabilið og fylgdi því eftir með því að vinna Íslandsmótið.

Sigursteinn lítur til baka nokkrum vikum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari. 

„Tilfinningin er dásamleg. Við stefndum að þessu lengi og veturinn var langur. Margir leikir, fórum úr 29 leikjum í 43 núna. 

Þetta var lengra tímabil og þeim mun ánægjulegra að klára þetta. Það er búin að vera fín uppbygging í þessu hjá okkur. Við erum með stóran hóp manna sem er búinn að vera saman í langan tíma. 

Við fáum vissulega viðbót í Aroni og Danna [Daníel Frey Andrésson] síðasta sumar sem ýtti okkur enn frekar áfram. 

Þeir komu með frábær gæði inn í liðið en líka vitneskju, að klára titla. Það var það sem vantaði,“ sagði Sigursteinn við mbl.is. 

Gefur augaleið

Sigursteinn segir það gefa augaleið að FH vilji halda áfram að vinna titla eftir þetta tímabil. 

„Það gefur augaleið að þegar þú ert búinn að prófa þetta þá hefur ekki áhuga á neinu öðru heldur en að vinna aftur. 

Verkefni alls félagsins er að halda áfram og bæta í. FH mætir til leiks á næsta ári til að gera atlögu að öllu.“

Einar Bragi Aðalsteinsson er farinn frá félaginu og til sænska félagsins Kristianstad. FH hefur þá fengið Gunnar Kára Bragason og Ólaf Gústafsson til liðs við sig. Sigursteinn segir sumarið verið rétt að byrja.

„Einar Bragi er náttúrulega að fara út við vitum það og að við séum að fá Gunnar Kára og Ólaf Gústafsson. Sumarið er rétt að byrja og við verðum að sjá hvað gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert