Búist við 10 þúsund gestum á landsmótið

Landsmótið er það 23. í röðinni og hefur mótið verið …
Landsmótið er það 23. í röðinni og hefur mótið verið einn stærsti íþróttaviðburður landsins frá upphafi. mbl.is/Styrmir Kári

Landsmót hestamanna er rétt handan við hornið en það mun fara fram í Víðidal á keppnissvæði Fáks í Reykjavík dagana 1.-8. júlí. Talið er að allt að 10 þúsund gestir sæki mótið, bæði erlendir og innlendir, ásamt knöpum. Landsmótið er það 23. í röðinni og hefur mótið verið einn stærsti íþróttaviðburður landsins frá upphafi.

Nú þegar hafa 4 þúsund manns tryggt sér helgar- eða vikupassa inn á mótið að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar framkvæmdastjóra Landsmóts 2018.

„Það er þessi helsti kjarni sem er búinn að kaupa miða núna. En ég áætla að fjöldi muni ná 9-10 þúsundum þegar sem mest verður, á keppniskvöldunum á föstudag og laugardag.“

Frítt fyrir alla á sunnudag

Síðasta Landsmót hestamanna var haldið fyrir tveimur árum á Hólum í Hjaltadal og telur Áskell Heiðar að svipaður fjöldi hafi keypt sér miða fyrir mót og nú. Hann væntir þó að fjöldinn verði meiri nú þegar að mótið er staðsett í Reykjavík.

Á morgun er fyrirkomulagið með örlítið breyttu sniði en áður þar sem að frítt verður inn fyrir alla. Þá fer fram keppni í í barna- og unglingaflokkum sem lýkur með verðlaunaafhendingu síðdegis.

„Þetta er tilraun hjá okkur að hafa frítt inn á sunnudag. Með þessu viljum bæði þjónusta fjölskyldufólk, þ.e. ættingja og vini þeirra barna sem eru að keppa og einnig auka aðgengi fyrir þá sem eru ekki mikið í kringum hestaíþróttina,“ segir Áskell Heiðar og bætir við að svæðið sé orðið glæsilegt og hvetur áhugasama til að kíkja við og taka það út.

Reiðhöll breytist í mathöll

Á morgun ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi en á dagskránni eru t.d. skemmtiatriði með Jóa Pé og Króla og Magna. Þá er búið er að setja upp sérstaka HM-aðstöðu þar sem að leikirnir á Heimsmeistaramótinu verða sýndir. Veitingar verða seldar í Reiðhöllinni sem fær nú nýtt hlutverk sem mathöll, ásamt því að matsöluvagnar selja götumat.

„Við bindum vonir við að hér geti allir átt góðan fjölskyldudag,“ segir Áskell Heiðar, að vonum spenntur fyrir komandi viku.

Á mánudagsmorgun hefst svo keppni í B-flokki fyrir hádegi og kynbótadómar verða síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert