Íslenski hesturinn á mikið inni

Það segir ýmislegt um ágæti íslenska hestsins hvað honum hefur tekist að ná miklum vinsældum víða um heim þrátt fyrir skort á samhæfðu kynningar- og markaðsstarfi. „Af ýmsum ástæðum hefur ekki verið mikil samvinna í kringum það að kynna íslenska hestinn og fólk unnið hvað í sínu horninu að reyna að koma honum á framfæri,“ segir Jelena Ohm. „Þetta breyttist árið 2015 þegar hagsmunaaðilar í hestabransanum ákváðu að snúa bökum saman og hleyptu verkefninu Horses of Iceland af stokkunum.“

Jelena er verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu og segir hún verkefnið hafa náð góðum árangri. Í tjaldi sem Horses of Iceland (www.horsesoficeland.is) setur upp á mótssvæðinu, nálægt félagsheimili Fáks, verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá alla mótsdagana, fyrirlestra og kvikmyndasýningar, en líka ýmsa óvænta viðburði.

„Markaðsverkefnið, sem er alþjóðlegt, hófst með formlegri stefnumótun. Haldnir voru vinnufundir með hagsmunaaðilum til að tryggja að þekking og reynsla allra þeirra sem starfa í greininni, í ræktun, útflutningi á hestinum og vörum honum tengdum, sem og í þjónustu, nýttust í vinnunni og hugmyndir þeirra almennt. Eftir mikla vinnu og ítarlega rýni, jafnt innanlands sem utan, þróuðum við stefnu til að vinna eftir og gerðum aðgerðaáætlun og nýtt vörumerki varð til: Horses of Iceland – Bring you closer to nature,“ útskýrir Jelena. „Útgangspunkturinn er að íslenski hesturinn flytur okkur á ótroðnar sloðir og leyfir okkur að upplifa töfra náttúrunnar. Markmiðið er að auka vitund um íslenska hestinn um heim allan og leggja grunn að aukinni verðmætasköpun í tengslum við hann.“

Markviss markaðssetning

Samkvæmt samningi við hið opinbera taka stjórnvöld þátt í verkefninu með því að jafna þau framlög sem koma frá greininni, krónu á móti krónu. Jelena segir tilgang Horses of Iceland bæði að kynna og styðja við hagsmuni útflytjenda íslenskra hesta en líka efla hestatengda þjónustu, ferðaþjónustu og sölu á vörum tengdum hestinum. „Við byrjuðum á erlendum ferðamönnum á Íslandi og fólkinu sem er viðriðið íslenska hestinn í útlöndum en síðarnefndi hópurinn er á margan hátt okkar sendiherrar og elskar yfirleitt allt sem íslenskt er,“ upplýsir Jelena. „Frá árinu 2018 færðum við síðan áhersluna yfir á hestafólk sem er kunnugt öðrum hestakynjum með það fyrir augum að fræða það betur um eiginleika íslenska hestsins og reyna að draga úr smáhesta-stimplinum og ýmsu öðru sem hefur loðað við ímynd hans.“

Hófst með Nonna og Manna

Jelena þekkir það frá fyrstu hendi hversu auðvelt það getur verið fyrir útlendinga að hrífast af íslenska hestinum, ef þeir bara fá tækifæri til þess. Hún fæddist í Þýskalandi og smitaðist af Íslandsáhuganum í gegnum móður sína. „Þetta byrjaði allt með mömmu og þáttunum um Nonna og Manna. Hún heillaðist af Íslandi og dreymdi um að eignast hvítan íslenskan hest. Þannig byrjaði löng saga fjölskyldu minnar og Íslands. Ég bý núna á Íslandi en móðir mín er með íslenska hesta á búgarði sínum í Kanada.“

Móðir Jelenu var ekki sú eina sem uppgötvaði íslenska hestinn um þetta leyti. Áhugi á íslenska hestinum blómstraði í kjölfarið á Nonna og Manna-þáttunum og segir Jelena að mörgum góðum knöpum hafi þótt íslenska kynið svo áhugavert að þeir færðu sig úr stóru hestakynjunum yfir í lágvaxna en lipra og kröftuga íslenska hesta. „Í kjölfarið var víða reynt að koma íslenska hestinum á framfæri en gekk misvel. Er það núna fyrst sem segja má að íslenski hesturinn hafi eignast nokkuð stórt bakland í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar um heiminn.“

Dýrmætur og einstakur hestur

Sala á hestum til útlanda er allstór atvinnugrein og undanfarin ár hafa í kringum 1.500 hestar verið seldir úr landi árlega. Jelena segir til mikils að vinna ef styrkja má þessa útflutningsgrein en það sé ekki síður mikilvægt að nýta þau tækifæri sem bjóðast í ferðaþjónustunni. „Íslenski hesturinn er samofinn sögu landsins, hefur verið þarfasti þjónn landsmanna í gegnum aldirnar og er hluti af þeirri náttúru- og frelsisímynd sem við viljum koma á framfæri við umheiminn,“ segir Jelena. „Að geta betur notað íslenska hestinn til að laða ferðamenn til Íslands þýðir ekki bara auknar tekjur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á vandaða útreiðartúra heldur líka tekjur víða annars staðar í hagkerfinu enda þurfa ferðalangarnir að leigja sér bíl, kaupa gistingu og mat og njóta þeirrar afþreyingar sem stendur til boða.“

Farið á hestbak í sýndarveruleika

Kynningartjald Horses of Iceland á Landsmóti hestamanna er 200 fermetrar að stærð og verður rétt fyrir ofan kynbótabrautina. Þar verður í boði fræðsla á meðan á mótinu stendur og m.a. hægt að hlýða á fyrirlesara. „Við fáum t.d. til okkar fræðimenn sem hafa skoðað erfðamengi íslenska hestsins og staðsett þau gen sem ráða gangtegundunum,“ segir Jelena. „Við höfum gætt þess alveg sérstaklega að hafa fræðsluna í tjaldinu áhugaverða fyrir yngstu gestina og höldum veislu fyrir krakkana á fyrsta degi mótsins þegar keppni í barna- og unglingaflokkum fer fram og ókeypis er inn á mótssvæðið.“

Af öðrum hápunktum í tjaldi Horses of Iceland má nefna sýndarveruleikaupplifun af íslenska hestinum. „Gestir geta fengið að setja á sig sýndarveruleikagleraugu sem flytja þá yfir í undraheim íslenska hestsins og íslenskrar náttúru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert