Jakob valinn knapi ársins

Jakob Svavar Sigurðsson fyrir miðju við verðlaunaafhendinguna í dag.
Jakob Svavar Sigurðsson fyrir miðju við verðlaunaafhendinguna í dag. Ljósmynd/LH

Jakob Svavar Sigurðsson var í dag útnefndur knapi ársins af Landssambandi hestamannafélaga og fékk um leið viðurkenningu frá ÍSÍ fyrir það afrek.

Í tilkynningu frá LH segir um Jakob:

Jakob Svavar Sigurðsson er knapi ársins 2020 og er það í annað sinn sem hann hlýtur þann heiður. Jakob Svavar er fjölhæfur afreksknapi sem tók þátt í nær öllum keppnisgreinum sem í boði eru á þeim mótum sem haldin voru í ár og var reglulega í úrslitum eða á meðal sigurvegara á þeim.

Hann náði góðum árangri í íþróttakeppni og þá sérstaklega á þeim Hálfmána frá Steinsholti í tölti og fjórgangi og Konsert frá Hofi í tölti. Þá má einnig nefna Erni frá Efri-Hrepp sem hlaut 8,08 í gæðingaskeiði og Vallarsól frá Völlum og Kopar frá Fákshólum sem hann keppti á í slaktaumatölti með góðum árangri. Hann er á meðal fimm efstu knapa á stöðulistum ársins í öllum áðurnefndum keppnisgreinum. Hann tók þátt í skeiðgreinum á Jarli frá Kílhrauni og er besti tími þeirra í 100 metra skeiði 7,57 sekúndur.

Hann sýndi 40 hross í kynbótadómi í 46 sýningum með frábærum árangri og átti margar eftirminnilega sýningar á árinu. Hann tók þá einnig þátt í gæðingakeppni á Nökkva frá Syðra-Skörðugili og var m.a í A-úrslitum í A-flokki á Gæðingamóti Geysis. Jakob Svavar er fagmaður fram í fingurgóma með háttvísi, sanngjarna reiðmennsku og íþróttamannslega framkomu að leiðarljósi, hann er knapi ársins 2020.

Nánar um verðlaunaafhendinguna í dag þar sem fleiri knapar voru verðlaunaðir og keppnishestabú ársins útnefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert