Senegal með frábæran sigur á Póllandi

Pólland og Senegal mættust í fyrstu umferð H-riðils heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Moskvu í dag þar sem Senegal fór með sigur af hólmi, 2:1. Thiago Cionek, varnarmaður Pólverja varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 37. mínútu og staðan því 1:0 í hálfleik.

M'Baye Niang tvöfaldaði svo forystu Senegal á 60. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn pólska liðsins. Grzegorz Krychowiak minnkaði muninn fyrir Pólland á 86. mínútu en lengra komust þeir ekki og lokatölur því 2:1 fyrir Senegal sem byrjar heimsmeistaramótið á sigri.

Pólverjar mæta Kólumbíu í annarri umferð H-riðils 24. júní í Kazan. Þá mætast Japan og Senegal í Ekaterinburg en bæði lið eru með 3 stig í riðlinum eftir fyrstu umferðina.

M'Baye Niang fagnar marki sínu í dag.
M'Baye Niang fagnar marki sínu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert