Fimm Kim í öftustu línu

Kim Moon-Hwan í baráttunni við Nicolás de la Cruz í …
Kim Moon-Hwan í baráttunni við Nicolás de la Cruz í dag. AFP/Jewel Samad

Svo skemmtilega vildi til að fimm leikmenn sem bera sama fjölskyldunafnið, án þess þó að vera skyldmenni, voru í byrjunarliði Suður-Kóreu í markalausu jafntefli gegn Úrúgvæ á HM í knattspyrnu karla í Katar í dag.

Í markinu hjá Suður-Kóreubúum stóð Kim Seung-Gyu og í fjögurra manna vörn voru svo þeir Kim Moon-Hwan, Kim Min-Jae, Kim Young-Gwon og Kim Jin-Su.

Allir fimm léku allan leikinn í dag og hjálpuðu liðinu að halda hreinu.

Einn Kim til viðbótar er í leikmannahópnum hjá Suður-Kóreu á HM, Kim Tae-Hwan, og er hann sömuleiðis varnarmaður.

mbl.is