Erlingur bíður átekta með sína menn

Erlingur Birgir Richardsson er þjálfari hollenska landsliðsins.
Erlingur Birgir Richardsson er þjálfari hollenska landsliðsins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson gæti í dag orðið fimmti íslenski þjálfarinn á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Egyptalandi en nokkrar líkur eru á að Grænhöfðaeyjar komist ekki til leiks vegna kórónuveirusmita og þá kæmu Hollendingar í staðinn.

Erlingur sagði við RÚV í morgun að hann biði átekta á hótelherbergi við Schiphol-flugvöll í Hollandi, búið væri að afpanta flugið heim til Íslands í dag og hann væri á leið í skimun fyrir kórónuveirunni.

„Ef þetta verður ættum við að geta tekið flug yfir til Egyptalands annað kvöld. Það er verið að henda okkar leikmönnum í Covid-próf bara hér og þar í þessum töluðu orðum," segir Erlingur við RÚV og segir sína menn klára í slaginn ef kallið kemur.

Holland var þriðja varaþjóðin inn á HM og nú hafa tvær þær efstu á listanum verið kallaðar til Egyptalands. Norður-Makedónía og Sviss eru komin í stað Tékklands og Bandaríkjanna sem urðu að hætta við þátttöku vegna kórónuveirusmita.

„Á sunnudag átti maður nú ekki von á því að þetta færi svona, sérstaklega þar sem við vorum þriðja varaþjóð og mjög stutt í mót. En svo virðast sum liðin ekki hafa gætt nægilega vel að sér í smitvörnum og þessi staða er því komin upp,“ segir Erlingur.

Holland mun mæta Ungverjalandi í sínum fyrsta leik á föstudaginn ef svo fer að Grænhöfðaeyjar þurfi að draga lið sitt úr keppni.

mbl.is