Hvað gera Íslendingaliðin á HM í dag?

Alfreð Gíslason ræðir við þýsku landsliðsmennina í leiknum við Úrúgvæ.
Alfreð Gíslason ræðir við þýsku landsliðsmennina í leiknum við Úrúgvæ. AFP

Alfreð Gíslason, Dagur Sigurðsson og Halldór Jóhann Sigfússon verða allir á ferðinni í annað sinn í dag með lið sín á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Egyptalandi.

Alfreð og þýska landsliðið eiga greiða leið í milliriðil og eftir yfirburðasigur á Úrúgvæ, 43:14, í fyrsta leik verður væntanlega annar auðveldur leikur á dagskránni í dag klukkan 17. Andstæðingarnir frá Grænhöfðaeyjum ná vart í lið vegna kórónuveirusmita, þeir sluppu vel frá leiknum við Ungverja þar sem þeir töpuðu 34:27, en verða þýska liðinu tæplega mikil fyrirstaða. 

Dagur og Japanir komu gríðarlega á óvart með jafntefli gegn Króatíu í fyrsta leiknum, 29:29, en þeir mæta Katar í fyrsta leik dagsins klukkan 14.30. Katar vann Angóla í fyrstu umferð og því er ljóst að annaðhvort Katar eða Japan, mögulega bæði, verður komið með farseðlana í milliriðla eftir viðureignina í dag. 

Halldór Jóhann og hans menn frá Barein höfðu lítið í dönsku heimsmeistarana að gera og töpuðu 34:20. En í dag mæta þeir Argentínu klukkan 17 í nánast hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðli. Argentína vann Kongó, 28:22, í fyrstu umferðinni og í þessum riðli er þriggja liða keppni um hvaða tvö fylgja Dönum í milliriðilinn.

Leikir dagsins á HM:

14.30 C Katar - Japan
17.00 A Grænhöfðaeyjar - Þýskaland
17.00 B Túnis - Brasilía
17.00 C Angóla - Króatía
17.00 D Argentína - Barein
19.30 A Ungverjaland - Úrúgvæ
19.30 B Pólland - Spánn
19.30 D Kongó - Danmörk

Uppfært kl. 9.50:
Grænhöfðaeyjar geta ekki mætt til leiks gegn Þýskalandi vegna kórónuveirusmita og Þjóðverjar teljast þar með hafa unnið leikinn 10:0.

mbl.is