Vill Forsetabikarinn á Bessastaði

Hafdís Renötudóttir átti flotta innkomu í dag.
Hafdís Renötudóttir átti flotta innkomu í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það var geggjað. Markmiðinu að vinna er náð og að vinna stórt. Þetta var mjög gaman,“ sagði markvörðurinn Hafdís Renötudóttir í samtali við mbl.is eftir 37:14-sigur íslenska landsliðsins í handbolta á Grænlandi í fyrsta leik liðanna í Forsetabikarnum á HM í dag.

„Þetta er eins og að mæta í alla landsleiki. Það er allt annað tempó. Vörnin var flott í dag og þá náum við markmenn að verja meira,“ sagði Hafdís, sem lék seinni hálfleikinn og gerði býsna vel.

„Það er gaman að vinna leiki og ekki síður þegar maður stendur sig vel. Þetta var ógeðslega gaman og nú fer maður sáttur á koddann og við verðum tilbúnar á móti Paragvæ,“ sagði hún.

Hafdís Renötudóttir ræðir við Hlyn Morthens og Elínu Jónu Þorsteinsdóttur.
Hafdís Renötudóttir ræðir við Hlyn Morthens og Elínu Jónu Þorsteinsdóttur. Ljósmynd/Jon Forberg

Leikmenn sem ofanritaður hefur rætt við á meðan á mótinu stendur muna oft ekki mikið eftir leikjum sem þeir eru nýbúnir að spila. Hafdís man t.d. ekki eftir tveimur glæsilegum tvöföldum vörslum í leiknum í kvöld.

„Ég er mjög ánægð með það, en ég man ekki eftir þeim. Maður fer í eitthvað „zone“ þegar maður á góðan leik. Þannig er það þegar ég spila vel,“ útskýrði hún.

Hafdís vill vinna Forsetabikarinn og hafa hann til sýnis á Bessastöðum. „Þetta var sorglegt á móti Angóla. Við ætlum að svara fyrir það og vinna þennan bikar. Forsetinn ætlar að setja hann á Bessastaði eftir að við vinnum hann,“ sagði Hafdís lauflétt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert