Logi leikmaður febrúarmánaðar hjá Ulm

Logi Gunnarsson var um helgina útnefndur leikmaður febrúarmánaðar hjá þýska körfuknattleiksliðinu Ulm. Logi sigraði með yfirburðum í kjöri þar sem stuðningsmenn félagsins kjósa jafnan, og fékk 61 prósent atkvæða en sá næsti var með 12 prósent.

Óhætt er að segja að tími hafi verið kominn á Loga því hann varð þriðji í fyrsta kjörinu í október, og síðan annarra í nóvember, desember og janúar.

Logi skoraði 14 stig á laugardaginn þegar Ulm sigraði Heidelberg, 94:86, í þýsku 2. deildinni. Þar er liðið í öðru sæti með 38 stig eftir 22 leiki, tveimur á eftir toppliðinu, Karlsruhe. Fred Williams, fyrrum leikmaður Þórs á Akureyri, spilaði sinn fyrsta leik með Ulm, kom til leiks í fjórða leikhluta og skoraði þá 15 stig.

Jón Arnór Stefánsson átti ágætan leik á laugardaginn og skoraði 17 stig í óvæntum sigri Trier á Oldenburg, 90:85, í 1. deildinni. Jón Arnór átti að auki 6 stoðsendingar, af 9 slíkum hjá liðinu, og tók þrjú fráköst.

Trier náði þar með Wurzburg að stigum á botninum, bæði lið eru með 8 stig, en næst fyrir ofan eru Giessen og Hagen með 12 stig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert