Ævintýrasigur Chicago gegn Lakers

Derrick Rose skoraði sigurkörfuna.
Derrick Rose skoraði sigurkörfuna. Reuters

Chicago Bulls vann í kvöld ævintýralegan útisigur á Los Angeles Lakers, 88:87, í Staples Center í Los Angeles, á fyrsta leikdegi NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Derrick Rose, leikmaður ársins á síðasta tímabili, skoraði sigurkörfuna fyrir Chicago sem var sex stigum undir þegar tæp mínúta var eftir af leiknum.

Chicago byrjaði betur og var yfir lengi vel, 22:20 eftir fyrsta leikhluta og 56:49 í hálfleik. Lakers náði að snúa blaðinu við í lok þriðja leikhluta og var yfir að honum loknum, 69:68. Í fjórða leikhluta komst Lakers í 80:70 en Chicago minnkaði muninn í fjögur stig, 85:81, þegar hálf önnur mínúta var eftir.

Kobe Bryant kom Lakers í 87:81 þegar 55 sekúndur voru eftir og sigur liðsins blasti við en breski landsliðsmaðurinn Luol Deng gerði fimm stig í röð fyrir Chicago og minnkaði muninn í 87:86 þegar 20 sekúndur voru eftir. Chicago náði boltanum og Derrick Rose kom liðinu í 88:87 tæpum 5 sekúndum fyrir leikslok. Það reyndist sigurkarfan því Deng varði skot frá Bryant með tilþrifum um leið og leiktíminn rann út!

Rose skoraði 22 stig fyrir Chicago, Deng 21 og Carlos Boozer 15.

Kobe Bryant skoraði 28 stig fyrir Lakers, Pau Gasol 14 og Steve Blake 12.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert