Ágúst: Þurfum að bæta liðsvörnina

Ágúst Angantýsson leikur með KFÍ í vetur.
Ágúst Angantýsson leikur með KFÍ í vetur. Ljósmynd/KFÍ

Ágúst Angantýsson lék sinn fyrsta leik fyrir KFÍ í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld og skoraði 19 stig í 98:106 tapleik gegn Njarðvík. 

„Það eru fullt af jákvæðum punktum í þessum fyrsta leik hjá okkur en margir hrikalega neikvæðir líka. Þá sérstaklega að við skulum fá á okkur 106 stig á heimavelli. Það helsta sem ég tek út úr þessum leik er að við þurfum að bæta liðsvörnina okkar,“ sagði Ágúst en leikmenn KFÍ verða ekki sakaðir um að hafa ekki barist fyrir stigunum í kvöld. „Okkur er spáð 11. sæti í deildinni og við gerum okkur fulla grein fyrir því að við þurfum að berjast fyrir öllu sem við ætlum að fá. Við þurfum að berjast og hafa fyrir öllum stigum hvort sem það verður á heima- eða útivelli. Ég held að menn skilji það.“

Ágúst hafði félagaskipti úr KR yfir í KFÍ í sumar og verður í mun stærra hlutverki hjá KFÍ en hjá KR. „Þetta leggst mjög vel í mig. Ég heimtaði ekki endalausan spilatíma. Ég er ekki „fancy“ leikmaður eða einhver svaka stjarna en það er gaman að fá að taka þátt í þessu á sínum forsendum. Mínar forsendur eru þær að ég legg mig 100% inni á vellinum,“ útskýrði Ágúst sem verður staðsettur fyrir sunnan og mun þar æfa með Breiðabliki. „Mér finnst það ekki vera neitt mál þó það hái manni auðvitað eitthvað að vera ekki að æfa með liðinu alla daga. Ég hef sett mér markmið að æfa vel sjálfur auk þess sem Blikar hafa verið svo góðir að leyfa mér að æfa með sér,“ sagði Ágúst sem kom fljúgandi í heimaleikinn í morgun. Vél Flugfélagsins lenti á Þingeyri þar sem ófært var á Ísafjörð en Ágúst er ættaður frá Þingeyri. „Ég skrapp bara beint í mat til ömmu í hádeginu og fór með afa á hrútasýningu þannig að ég var sáttur við daginn," sagði Ágúst léttur þegar Mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert