Allur Sauðárkrókur var á bak við okkur

Israel Martin var tilfinningaríkur á hliðarlínunni í dag.
Israel Martin var tilfinningaríkur á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Hari

„Ég er gríðarlega ánægður, þetta snýst ekki um mig. Það koma margir að þessum titli og allur Sauðárkrókur var á bak við okkur,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, eftir að liðið tryggði sér sinn fyrsta bikarmeistaratitil í sögunni í dag. Tindastóll valtaði þá yfir KR, 96:69, í Laugardalshöll. 

Martin tileinkaði stuðningsmönnum Tindastóls og íbúum Sauðárkróks sigurinn. 

„Ég er glaðastur af öllum því ég á hlut í því að gera alla stuðningsmennina okkar glaða. Það er stórkostlegt að geta glatt fólkið. Það er mikil ábyrgð að stýra þessu liði og margir sem treysta á okkur. Stuðningsmennirnir voru ótrúlegir. Þeir ýttu okkur áfram, sem er nokkuð sem við þurfum í svona úrslitaleikjum.“

Tindastóll skoraði fyrstu 14 stig leiksins og leit aldrei til baka eftir það. 

„Við byrjuðum virkilega vel og sýndum á fyrstu fimm mínútum leiksins að við vildum vinna. Ég ber mikla virðingu fyrir leikmönnum og þjálfara KR. Þetta eru stórir leikmenn og frábær þjálfari. Þeir eru fjórfaldir Íslandsmeistarar svo það er magnað að vinna,“ sagði Martin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert