Grindvíkingurinn stigahæstur í Idaho

Jón Axel Guðmundsson (3) í leiknum í nótt.
Jón Axel Guðmundsson (3) í leiknum í nótt. AFP

Ísland fékk ekki litla landkynningu gagnvart bandarískum sjónvarpsáhorfendum þegar Jón Axel Guðmundsson fór á kostum í síðari hálfleik í leik Davidson og Kentucky í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans í Idaho í nótt. 

Kentucky sem er stórveldi í háskólakörfuboltanum hafði betur 78:73 og fer áfram í 32-liða úrslitin en Davidson er úr leik. Veðbankar bjuggust fyrir fram við sigri Kentucky þar sem Davidson kom frekar á óvart með því að komast í úrslitakeppnina og vegna sögu Kentucky sem er næstsigursælasta liðið í sögu NCAA. Kentucky hafði unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum fyrir úrslitakeppnina. 

Að loknum fyrri hálfleik var Kentucky með tíu stiga forskot og helstu skorarar Davidson á tímabilinu, Peyton Aldridge og Kellan Grady, voru ískaldir. Davidson-liðið reynir töluvert að skjóta þriggja stiga skotum þar sem liðið er ekki með marga hávaxna og líkamlega sterka leikmenn. Vörn Kentucky var hins vegar virkilega sterk og er þekkt fyrir að verjast vel skotum utan af velli. 

Jón Axel á fleygiferð í Idaho í nótt.
Jón Axel á fleygiferð í Idaho í nótt. AFP

Þá voru góð ráð dýr en þá tók Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson til sinna ráða. Setti hann niður þrjú þriggja stiga skot snemma í síðari hálfleik í jafn mörgum tilraunum. Oftar en ekki með mann í sér. Jón hafði reynt þrívegis fyrir sér utan þriggja stiga línunnar í fyrri hálfleik án þess að hitta en hann missti ekki kjarkinn. Jón Axel er leikstjórnandi Davidson og hans aðalhlutverk er því ekki að skora. En einhver varð að taka af skarið og Jón kom Davidson inn í leikinn og úr varð spennuleikur. 

Davidson náði að jafna en komst þó aldrei yfir og Kentucky var sterkara á endasprettinum. Jón var stigahæstur hjá Davidson með 21 stig en hann setti niður sex þriggja stiga skot úr sjö tilraunum í síðari hálfleik. Auk þess tók hann 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. 

Um 11 þúsund áhorfendur voru í höllinni og yfirleitt eru um 5 milljónir manna sem horfa á leikina á þessu stigi keppninnar í sjónvarpi en bandaríski háskólakörfuboltinn er gríðarlega vinsælt sjónvarpsefni í Bandaríkjunum og er fyrir vikið gjarnan kallað March Madness. 

Til að gefa íþróttaunnendum einhverja mynda af umfanginu þá var Chris Webber annar þeirra sem lýsti leiknum í beinni á CBS. Webber var stórstjarna í háskólaboltanum með Michigan og í NBA-deildinni með Golden State, Washington og Sacramento. Í stúdíó voru álitsgjafarnir Charles Barkley, ólympíumeistari með draumaliðinu 1992, og Kenny Smith NBA-meistari með Houston. Allir þessir menn eru í vinnu við að greina frá NBA-deildinni í sjónvarpi yfir veturinn.

Var Webber óspar á hrósið til handa Jóni í síðari hálfleik og kom ítrekað fram í útsendingunni að um Íslending væri að ræða. Auk þess þótti lýsendum athyglisvert að Jón væri aðeins á öðru ári í skólanum og á því tvö ár eftir ef hann kýs að vera áfram hjá Davidson. 

Jón Axel Guðmundsson er þriðji Íslendingurinn sem kemst í úrslitakeppni NCAA í körfuboltanum. Helena Sverrisdóttir náði því með TCU frá Dallas og Frank Booker jr lék einnig í March Madness með Oklahoma árið 2015. 

NBA-meistarinn Stephen Curry lék með Davidson á sínum tíma og fer ekki leynt með áhuga sinn á liðinu á samskiptamiðlum. Hann lék með liðinu í March Madness fyrir tíu árum síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert