Okkar að tækla mótvindinn

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, ræðir við sínar stúlkur í ...
Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, ræðir við sínar stúlkur í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þetta var erfiður leikur og við vorum að elta þær nánast allan tímann,“ sagði Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 83:73-tap liðsins gegn Keflavík í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Garðabænum í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:2 og þurfa liðin að mætast í hreinum úrslitaleik 17. apríl í Keflavík.

„Við gerðum vel varnarlega en vorum ekki að hirða lausu boltana í teignum og þær skoruðu allt of mörg stig eftir sóknarfráköst. Við vorum ekki að hitta vel í kvöld en það er samt sem áður engin afsökun. Þær skora 20 stig eftir sóknarfráköst og það er of dýrt í úrslitakeppninni. Þetta eru hlutir sem við getum lagað og við þurfum að gera það fyrir leikinn á miðvikudaginn.“

Bríet Sif Hinriksdóttir lék ekki með Stjörnunni í kvöld en hún fékk höfuðhögg í þriðja leik liðanna í Keflavík í síðustu viku.

„Meðbyrinn er með Keflavík eins og staðan er núna og það er okkar að tækla mótvindinn. Við urðum fyrir áfalli í síðasta leik þegar Bríet dettur út og hún var ekki með í kvöld. Við þurftum aðeins að breyta holningunni á liðinu vegna þessa en það kemur maður í manns stað og þetta á ekki að stoppa okkur í því að taka fráköst undir körfunni.“

Pétur viðurkennir að það sé komin ákveðin þreyta í mannskapinn hjá Stjörnunni en vonar að leikmenn liðsins nái að kreista fram aukaorku í oddaleiknum á miðvikudaginn.

„Það eru fáir dagar á milli leikja og auðvitað finna leikmenn liðsins fyrir þreytu. Við erum ekki að æfa mikið og við höfum verið að leggja meiri áherslu á endurheimt og taktík á milli leikja. Ég hef reynt að vera duglegur að rúlla á liðinu í leikjum en í úrslitakeppninni snýst þetta líka um að reyna að finna hjá sér þessa auka orku til þess að klára dæmið og vonandi tekst okkur það á miðvikudaginn,“ sagði Pétur Már í samtali við mbl.is.

mbl.is