Slæmur þriðji leikhluti reyndist dýr

Hilmar Smári Henningsson skoraði 17 stig fyrir Ísland í kvöld.
Hilmar Smári Henningsson skoraði 17 stig fyrir Ísland í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði 79:74 fyrir Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik sínum í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Portúgal. Ísland leiddu með 14 stigum eftir fyrsta leikhluta og var staðan í hálfleik 30:41, íslenska liðinu í vil.

Íslenska liðið átti hins vegar afleitan þriðja leikhluta og leiddu Hvít-Rússar, 62: 57, að honum loknum. Íslandi tókst ekki að vinna upp þann mun í fjórða leikhluta og Hvít-Rússar fögnuðu því fimm stiga sigri.

Hilmar Pétursson var stigahæstur í íslenska liðinu með 20 stig, fimm fráköst og þrjár stoðsendingar en Hilmar Smári Henningsson var einnig öflugur með 17 stig og tvær stoðsendingar. Næsti leikur Íslands verður gegn Írlandi á morgun.

mbl.is