Fulltrúar körfuboltafjölskyldunnar í Bandaríkjunum

Jón Axel Guðmundsson skorar fyrir Davidson í leik í háskóladeildinni.
Jón Axel Guðmundsson skorar fyrir Davidson í leik í háskóladeildinni. AFP

Þrír Íslendingar leika í fyrstu deild bandaríska háskólakörfuboltans í vetur og fréttastofan AP fjallar um þá á vef sínum í dag.

Þetta eru Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson hjá Davidson, KR-ingurinn Þórir Þorbjarnarson hjá Nebraska og ÍR-ingurinn Hákon Örn Hjálmarsson hjá Binghamton. Greinarhöfundurinn Eric Olson segir að þó þeir séu langt frá hver öðrum séu þeir stöðugt í sambandi, nánast daglega, og fylgist með leikjunum hver hjá öðrum í sjónvarpi eða á netinu.

Sagt er frá stöðu mála hjá þremenningunum en af þeim er Jón Axel lengst kominn, á sínu lokaári með Davidson, og hann hefur sett mikinn svip sinn á liðið og sína deild. Hann er með bestu tölfræði skólans síðustu 27 árin og var kosinn besti leikmaðurinn í sinni deild síðasta vetur.  Davidson, sem er í Norður-Karólínu, er í 9. sæti af 14 liðum í Atlantic 10 deildinni.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leikur með Nebraska.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leikur með Nebraska. mbl.is/Árni Sæberg

Þórir er á þriðja ári með Nebraska og er með bestu skyttum í sinni deild þar sem nýting hans í 3ja stiga skotum er 44,6 prósent. Nebraska, sem er í samnefndu ríki, er í 13. sæti af 14 liðum í Big Ten deildinni.

Hákon er nýliði hjá Binghamton og fór vel af stað í vetur en hefur spilað heldur minna að undanförnu. Binghamton, sem er í New York, er í 8. sæti af 9 liðum í American East deildinni.

„Ég þekki nánast hvern einasta körfuboltamann á Íslandi. Þetta er lítil fjölskylda. Við köllum okkur körfuboltafjölskylduna. Ég heillaðist af aðstöðunni hérna, er afar ánægður með þjálfarateymið og bærinn er ekki stór. Fólkið er svipað og heima á Íslandi. Ég þurfti áskorun og ákvað að fara hingað," segir Þórir.

„Mig langaði alltaf til að komast í „March Madness“ (úrslitakeppni háskólanna) og að spila í NBA. Ég taldi að best væri að fara til Bandaríkjanna og sýna sig og sanna á móti þeim leikmönnum sem eru líklegastir til að komast í NBA-deildina. Þar sem við komum frá litlu landi erum við alltaf meðvitaðir um að við séum fulltrúar þess. Ég kem frá þrjú þúsund manna bæ þar sem allir þekkja alla og fyrir mig er fegurðin fólgin í því að koma hingað og sýna umheiminum hvað ég get gert inni á vellinum. Þegar maður kemur frá litlum bæ í litlu landi vill maður sýna að maður geti gert allt, ef maður sé tilbúinn til að vinna fyrir því," segir Jón Axel.

Hákon Örn Hjálmarsson leikur með Binghamton.
Hákon Örn Hjálmarsson leikur með Binghamton. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að ég sé á réttri leið en hef ekki spilað eins vel og ég get. Ég verð að vera þolinmóður. Ég átti ekki von á að þurfa að aðlagast mikið, þetta væri jú bara körfubolti. En þetta er allt önnur íþrótt en heima. Það má ekki snerta mótherjana og það er dæmt á ólöglegu skríningarnar. Körfuboltinn á Íslandi byggist meira á líkamsstyrk en hérna eru strákarnir meiri íþróttamenn, þeir eru fljótari og með meiri stökkkraft," segir Hákon.

mbl.is