Fimmfaldur Íslandsmeistari á Hlíðarenda - Darri hættur

Finnur Freyr Stefánsson er nýr þjálfari karlaliðs Vals.
Finnur Freyr Stefánsson er nýr þjálfari karlaliðs Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur Freyr Stefánsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Vals í körfuknattleik en þetta er kynnt á fréttamannafundi sem var að hefjast á Hlíðarenda.

Finnur Freyr skrifar undir tveggja ára samning við Valsmenn en Ágúst Björgvinsson, sem stýrt hefur liðinu undanfarin níu ár, hefur tekið við starfi yfirþjálfara hjá yngri flokkum félagsins.

Finnur Freyr stýrði liði Horsens í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en á árunum 2013 til ársins 2018 gerði hann KR að fimmföldum Íslandsmeisturum. Þá hefur hann einnig verið í þjálfarateymi íslenska landsliðsins og í dag er hann yfirþjálfari yngri landsliða Íslands. Finnur þjálfaði yngri flokka Vals veturinn 2018-2019 og þekkir því vel til á Hlíðarenda.

Helena Sverrisdóttir verður aðstoðarþjálfari kvennaliðs Vals.
Helena Sverrisdóttir verður aðstoðarþjálfari kvennaliðs Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytingar kvennamegin

Þá eru einnig breytingar á þjálfarateymi kvennaliðs félagsins en Ólafur Jónas Sigurðsson mun taka við liðinu af Darra Frey Atlasyni. Ólafur Jónas skrifar undir tveggja ára samning við Valsmenn og þá mun Helena Sverrisdóttir aðstoða Ólaf Jónas en hún hefur leikið með Valsliðinu undanfarin tvö tímabil.

Ólafur Jónas hefur undanfarin þrjú ár þjálfað kvennalið ÍR sem leikið hefur í 1. deildinni. Hann hefur náð mjög góðum árangri með liðið og þá hefur hann einnig verið aðstoðarþjálfari U20 ára landsliðs kvenna. Valskonur unnu þrefalt tímabilið 2018-19 en liðið var krýnt deildarmeistari á síðustu leiktíð áður en tímabilið var flautað af vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert