Deildarbikarnum aflýst

Úr leik KR og Stjörnunnar í vor.
Úr leik KR og Stjörnunnar í vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mótanefnd Körfuknattleikssambands Íslands hefur tekið þá ákvörðun að fresta deildarbikarnum sem átti að hefjast 23. ágúst í fyrsta sinn. Keppnin var kynnt til leiks fyrr í sumar.

Heilbrigðisyfirvöld hafa opnað á þann möguleika að æfingar og keppni í íþróttum með snertingu geti hafist að nýju en fylgja þurfi mjög ströngum skilyrðum. Að mati KKÍ gætu þau skilyrði orðið mjög íþyngjandi fyrir félögin sem taka þátt og því taldi mótanefnd ekki ástæðu til að leggja þær kvaðir á félögin á miðju undirbúningstímabili fyrir Íslandsmótið.

Enn stendur til að úrvalsdeild karla hefjist 1. október og að kvennadeildin byrji 23. september. 

mbl.is