Var hættur að finna fyrir löppunum á mér

Logi Gunnarsson hefur bikarmeistaratitilinn á loft.
Logi Gunnarsson hefur bikarmeistaratitilinn á loft. mbl.is/Skúli B. Sig

„Tilfinningin er ótrúleg og ég finn fyrir miklum létti að það sé loksins kominn bikar til Njarðvíkur eftir langa bið,“ sagði Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkur, í samtali við mbl.is eftir 97:93-sigur liðsins gegn Stjörnunni í úrslitaleik bikarkeppninnar í körfuknattleik, VÍS-bikarnum, í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

„Það hefur verið ákveðin bikarþurrð hjá félaginu og fólk er búið að bíða ansi lengi eftir þessu. Stuðningsmennirnir áttu þetta skilið og ég er hrikalega sáttur með að vera búinn að vinna loksins bikar því maður veit aldrei hvenær maður hættir í þessu.

Ég hefði ekki trúað því fyrir nokkrum árum ef einhver hefði sagt við mann að maður yrði fertugur að spila einhvern bikarúrslitaleik, og að maður myndi spila nánast allan leikinn,“ sagði Logi.

Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkinga.
Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stóð tæpt um tíma

Njarðvík varð síðast bikarmeistari árið 2005 og Íslandsmeistari árið 2006 þannig að liðið hefur beðið í fimmtán ár eftir bikar.

„Þú færð ekkert það mörg tækifæri til þess að vinna bikar og það er eitthvað sem maður fattar í raun bara eftir því sem maður verður eldri. Ég var hættur að finna fyrir löppunum á mér sökum þreytu en maður er alltaf með smá aukakraft, sérstaklega í svona leikjum.

Kannski var það ástæðan fyrir því að okkur tókst að landa sigrinum, því við vildum þetta svo mikið. Stjarnan er með hörkulið og þeir hafa unnið þetta oft áður. Við vissum að þeir myndu aldrei gefast upp og við hefðum hæglega getað glotrað þessu niður.“

Njarðvíkingar ætlar sér stóra hluti á komandi keppnistímabili.

„Við erum langt frá því að vera hættir. Það er bikar í boði í janúar og svo aftur aðeins seinna. Við munum fagna þessum titili í nokkra daga og svo förum við strax í það að undirbúa okkur fyrir komandi tímabil,“ bætti Logi við í samtali við mbl.is.

mbl.is