Keflvíkingar of sterkir fyrir Garðbæinga

Dominykas Milka og Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmenn Keflavíkur.
Dominykas Milka og Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmenn Keflavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Keflavík hafði betur gegn Stjörnunni, 80:65, í stórleik annarrar umferðar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af þar sem gestirnir úr Garðabænum leiddu naumlega, 14:16, að loknum fyrsta leikhluta áður en Keflvíkingar sneru taflinu við og leiddu með fjórum stigum, 37:33, í hálfleik.

Heimamenn reyndust áfram hlutskarpari í þriðja leikhluta og náðu að auka við forskot sitt. Staðan að leikhlutanum loknum 62:53.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að koma sér betur inn í leikinn og var fjórði og síðasti leikhluti hnífjafn framan af, heimamönnum í Keflavík til tekna.

Keflvíkingar voru áfram með góða stjórn á leiknum og settu í fluggír undir lokin sem leiddi til þess að þeir unnu að lokum öruggan 15 stiga sigur.

David Okeke, leikmaður Keflavíkur, var stigahæstur í leiknum með 24 stig. Hann náði tvöfaldri tvennu þar sem hann tók 11 fráköst að auki.

Stigahæstur Stjörnumanna var Hilmar Smári Henningsson með 13 stig, auk þess sem han gaf sjö stoðsendingar.

Keflavík fer með sigrinum upp að hlið nágranna sinn í Njarðvík og Tindastóls, en öll þrjú liðin hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í úrvalsdeildinni á tímabilinu og eru því með 4 stig, fullt hús stiga.

Stjarnan vann fyrsta leik sinn í síðustu en tapaði sem áður segir í kvöld og er með 2 stig um miðja deild.

Keflavík - Stjarnan 80:65

Blue-höllin, Subway deild karla, 15. október 2021.

Gangur leiksins:: 4:5, 6:7, 10:12, 14:16, 18:23, 20:25, 29:29, 37:33, 43:40, 53:46, 56:49, 62:53, 65:58, 72:61, 75:65, 80:65.

Keflavík: David Okeke 24/11 fráköst, Calvin Burks Jr. 16, Valur Orri Valsson 13/5 fráköst, Dominykas Milka 10/6 fráköst, Jaka Brodnik 10/11 fráköst, Arnór Sveinsson 5, Halldór Garðar Hermannsson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 10 í sókn.

Stjarnan: Hilmar Smári Henningsson 13/4 fráköst/7 stoðsendingar, Robert Eugene Turner III 12, David Gabrovsek 10, Shawn Dominique Hopkins 10/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 10/9 fráköst, Gunnar Ólafsson 7, Arnþór Freyr Guðmundsson 3.

Fráköst: 17 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson.

Áhorfendur: 223

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert