Framlengdur spennuleikur í Boston

Jaylen Brown var í stóru hlutverki hjá Boston Celtics í …
Jaylen Brown var í stóru hlutverki hjá Boston Celtics í nótt. AFP

Spennuleikur næturinnar í NBA-deildinni var háður í Boston þar sem heimamenn í Boston Celtics náðu að leggja Indiana Pacers í framlengdum leik, 101:98.

Jaylen Brown var með 26 stig og 15 fráköst fyrir Boston en Domantas Sabonis var með óvenjulega þrefalda tvennu fyrir Indiana, 23 fráköst, 11 stig og 10 stoðsendingar.

Joel Embiid átti enn einn stórleikinn með Philadelphia 76ers en liðið vann sinn sjöunda leik í röð, 111:91 í Houston, og Embiid skoraði 30 stig eða meira sjöunda leikinn í röð. Að þessu sinni 31 stig.

Anfernee Simons skoraði 23 stig fyrir Portland Trail Blazers og átti 11 stoðsendingar í góiðum sigri á Brooklyn Nets, 114:108. Kevin Durant skoraði 28 stig fyrir Brooklyn og Kyrie Irving var með 22 stig en hann tekur þátt í flestum útileikjum liðsins um þessar undir. James Harden var ekki með Brooklyn í nótt.

Jarret Allen skoraði 18 stig og tók 17 fráköst fyrir Cleveland Cavaliers sem lagði Sacramento Kings í hörkuleik í Kaliforníu, 109:108.

Úrslitin í nótt:

Charlotte – Milwaukee 103:99
Detroit – Utah 126:116
Boston – Indiana 101:98 - framlenging
New York – San Antonio 111:96
Houston – Philadelphia 91:111
Sacramento – Cleveland 108:109
Portland – Brooklyn 114:108

Chicago, Brooklyn og Miami eru í þremur efstu sætum Austurdeildar en Golden State, Phoenix og Utah í þremur efstu sætum Vesturdeildar.

mbl.is