Byrjunin lofar mjög góðu

Njarðvíkingurinn Aliyah Collier í baráttunni í Grafarvoginum í kvöld.
Njarðvíkingurinn Aliyah Collier í baráttunni í Grafarvoginum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Deildarmeistarar Fjölnis eru komnir yfir í einvígi sínu gegn Njarðvík í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir 69:62-heimasigur í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum í kvöld.  

Njarðvík byrjaði með látum og skoraði fyrstu níu stig leiksins úr þremur þriggja stiga skotum og tólf af fyrstu fjórtán stigum leiksins úr þristum. Eftir því sem leið á fyrsta leikhlutann komst Fjölnir betur inn í leikinn og Sanja Orazovic jafnaði í 15:15 þegar skammt var eftir af leikhlutanum.

Eftir það var Fjölnir með yfirburði í leikhlutanum og Aliyah Mazyck skoraði 15 stig í fyrsta leikhluta og var staðan eftir hann 26:15 en um leið og þriggja stiga skotin hættu að detta hjá Njarðvík var Fjölnir með yfirburði.

Aliyah Mazyck umkringd Njarðvíkingum í kvöld.
Aliyah Mazyck umkringd Njarðvíkingum í kvöld. Árni Sæberg

Annar leikhluti fór vægast sagt rólega af stað hjá báðum liðum því eftir fimm mínútur af honum höfðu liðin samanlagt aðeins skorað þrjú stig eftir að Dagný Lísa Davíðsdóttir gerði þriggja stiga körfu snemma í leikhlutanum. Diane Oumou skoraði loksins fyrstu tvö stig Njarðvíkur í öðrum leikhluta á sjöundu mínútu hans og minnkaði muninn í 32:17.

Njarðvík hélt áfram að minnka muninn örlítið í lok annars leikhluta og var staðan 36:27 þegar fyrri hálfleikur var allur og deildarmeistararnir í fínum málum. Fjölnir minnkaði hinsvegar muninn í sex stig snemma í seinni hálfleik, 41:35, en munurinn varð mestur 17 stig í fyrri hálfleik.

Þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta var munurinn kominn niður í fjögur stig, 43:39. Fjölnir var hinsvegar betra liðið undir lok leikhlutans og munaði tíu stigum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 53:43.

Diane Oumou sækir að Fjölnisvörninni.
Diane Oumou sækir að Fjölnisvörninni. mbl.is/Árni Sæberg

Njarðvík skoraði fimm fyrstu stigin í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn i fimm stig, 53:48. Fjölnir svaraði hinsvegar með fínu áhlaupi og var staðan 63:53 þegar skammt var eftir. Þrátt fyrir ágæta tilraun tókst Njarðvík ekki að jafna eftir það og Fjölnir er því kominn í forystu í einvíginu. 

Aliyah Mazyck fór á kostum fyrir Fjölni og skoraði 26 stig, tók 14 fráköst og gaf 9 stoðsendingar Dagný Lísa Davíðsdóttir bætti við 16 stigum. Kamilla Sól Viktorsdóttir skoraði 16 fyrir Njarðvík og Aliyah Collier gerði 15 stig. Annar leikurinn fer fram í Njarðvík fimmtudaginn 7. apríl.

Marblettirnir þess virði

Leikurinn í kvöld var fyrst og fremst mjög skemmtilegur og gefur góð fyrirheit fyrir það sem koma skal í einvíginu. Leikurinn var hraður, fullur af tilþrifum, áhlaupum og mistökum. Það komu furðulegir kaflar inn á milli eins og tíu mínútur án körfu hjá Njarðvík og að það hafi tekið Njarðvíkurliðið um 17 mínútur til að skora fyrstu körfuna sem var ekki þristur. 

Andrúmsloftið breytist í úrslitakeppninni og það sást. Bæði lið létu finna fyrir sér, með þeim afleiðingum að leikmenn lágu eftir. Sem betur fer voru þeir fljótir á fætur aftur og til í næsta einvígi. 

Aliyah Collier með boltann í kvöld.
Aliyah Collier með boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Vonandi verður þetta einkennandi fyrir það sem eftir lifið einvígisins. Leikmenn munu enda með stóra marbletti en það verður allt þess virði fyrir sigurliðið. Fjölnir gerði vel í að stöðva bestu leikmenn Njarðvíkur stærstan hluta leiks og deildarmeistararnir verða að halda því áfram, ætli þeir sér í úrslitin.

Næsti leikur verður sérstaklega erfiður fyrir Fjölni án Aliyah Mazyck sem fékk tvær óíþróttamannslegar villur og var vikið í sturtu annan leikinn í röð. Það verður þrautin þyngri fyrir Fjölni að leika án hennar á erfiðum útivelli.  

Nú er stórt tækifæri fyrir Njarðvík að vinna góðan heimasigur, koma sér aftur inn í einvígið og senda það aftur á byrjunarreit. Það má hinsvegar alls ekki afskrifa deildarmeistaranna, jafnvel þó það vanti þeirra besta leikmann. Ég bíð spenntur eftir leiknum á fimmtudag. 

Iva Bosnjak sækir að Vilborgu Jónsdóttur.
Iva Bosnjak sækir að Vilborgu Jónsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Gangur leiksins:: 2:9, 8:12, 18:15, 26:15, 29:15, 29:15, 34:25, 36:27, 41:30, 41:35, 43:39, 53:43, 56:48, 61:50, 63:57, 69:62.

Fjölnir: Aliyah Daija Mazyck 26/14 fráköst/9 stoðsendingar, Dagný Lísa Davíðsdóttir 16/10 fráköst, Iva Bosnjak 12/4 fráköst, Sanja Orozovic 10/8 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 5/7 fráköst.

Fráköst: 30 í vörn, 13 í sókn.

Njarðvík: Kamilla Sól Viktorsdóttir 16, Aliyah A'taeya Collier 14/23 fráköst, Diane Diéné Oumou 13/8 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 10/9 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 9.

Fráköst: 34 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Ísak Ernir Kristinsson, Ingi Björn Jónsson.

Fjölnir 69:62 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert