Miklu meira frelsi hér heima

Dagný Lísa Davíðsdóttir var kjörin besti leikmaður ársins í Subway-deildinni.
Dagný Lísa Davíðsdóttir var kjörin besti leikmaður ársins í Subway-deildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir var í gær kjörin besti leikmaður ársins í kvennaflokki í úrvalsdeildinni í körfubolta, Subway-deildinni. Dagný lék stórt hlutverk hjá Fjölni er liðið varð deildarmeistari í fyrsta skipti.

Dagný var 17 ára þegar hún fór til Bandaríkjanna í menntaskóla. Hún kom aftur til Íslands á síðasta ári, tveimur mastersgráðum og reynslunni ríkari. Hún lék fyrst í menntaskóla í Pennsylvaníu og svo háskóla í New York og síðan Wyoming. Eftir sjö ár í bandaríska mennta- og háskólaboltanum tók það sinn tíma að aðlagast íslensku deildinni.

„Mér fannst það mjög sérstakt. Ég var í mjög skipulögðum körfubolta úti þar sem hver millimetri skiptir máli. Þeir skipta sama máli hér heima en maður fær að stýra því sjálfur hvernig maður ráðstafar þeim.

Það er miklu meira frelsi í leikstílnum hér heima og býður einstaklingnum upp á að búa til sóknir. Mér finnst það mjög mikill munur að spila hér og úti en það var gaman að aðlagast að körfunni eins og hún er hér,“ sagði Dagný Lísa.

Nánar er rætt við Dagnýju í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. Þar er einnig rætt við Kristófer Acox sem var kjörinn bestur í karlaflokki. 

mbl.is