Farinn frá Þýskalandi – gæti æft með Golden State

Jón Axel Guðmundsson í sigurleiknum magnaða gegn Ítalíu í undankeppni …
Jón Axel Guðmundsson í sigurleiknum magnaða gegn Ítalíu í undankeppni HM á Ásvöllum í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Axel Guðmundsson landsliðsmaður í körfuknattleik hefur kvatt þýska félagið Crailsheim og vonast til þess að komast að á æfingum hjá NBA-meisturunum Golden State Warriors í sumar. 

Jón lék með Crailsheim seinni hluta nýliðins tímabils og fékk þar m.a. silfurverðlaunin í þýsku bikarkeppninni. Hann lék fyrri hluta tímabilsins með Fortitudo Bologna á Ítalíu.

Grindvíkingurinn sagði við mbl.is í kvöld að hann væri með nokkra hluti í skoðun fyrir næsta tímabil, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Ég er að bíða eftir því hvað gerist á næstu dögum en það er mögulegt að ég geti komist á æfingar hjá Golden State í sumar. Þar eru leikmenn teknir inn á æfingar með liðinu og vanalega eru þá nokkrir nýir að berjast um eitt, tvö eða þrjú laus sæti í hópnum fyrir næsta tímabil," sagði Jón Axel við mbl.is.

Hann kannast vel við sig vestanhafs eftir að hafa átt góðan fjögurra ára feril með Davidson-háskólanum. Svo vill til að Stephen Curry, stjarna Golden State og besti leikmaður nýliðinnar úrslitakeppni í NBA, lék einnig með Davidson á sínum tíma.

Næsta verkefni hans er hinsvegar leikurinn mikilvægi með íslenska landsliðinu gegn Hollandi í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer á Ásvöllum í Hafnarfirði næsta föstudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert